Home / Fréttir / Flokksstjóri í Wagner hópnum leitar hælis í Noregi

Flokksstjóri í Wagner hópnum leitar hælis í Noregi

Andrej Medvedev

Aðfaranótt föstudags 13. janúar tókst Andrej Medvedev, sem segist hafa verið háttsettur í Wagner-hópnum, her málaliða í Úkraínu, að flýja yfir landamærin til Noregs skammt frá Kirkenes, nyrst í Noregi. Þaðan var í snatri flogið með hann til Oslóar þar sem hann bað um pólitískt hæli og vernd ef hann skýrði frá Wagner-hópnum og starfsemi hans.

Hann sagði flóttasögu sína í myndsamtali frá Osló og birtist það á Gulagu.net á YouTube. Hann segist fús til samstarfs við norsku öryggislögregluna, PST.

Hann var fótgangandi í myrkri, snjó og vetrarkulda síðasta áfanga flóttans. Landamæraverðir rússnesku FSB öryggislögreglunnar eltu hann, sigaðu á hann hundum og skutu árangurslaust í áttina að honum.

Á myndbandinu segist Medvedev hafa verið foringi í fimm til tíu manna flokki innan Wagner hópsins. Jevgenij Prigozjin, oft nefndur „kokkur Pútins“ leiðir hóp málaliðanna, litið er á þá sem einkaher Prigozjins. Medvedev segist meðal annars hafa orðið vitni að fjöldamorði á hermönnum sem neituðu að hlýða fyrirmælum.

Í fréttum vegna flótta Medvedevs er minnt á að dreift hafi verið myndskeiðum sem sögð eru sýna Wagner hermenn sem yfirheyra meðal annars liðhlaupa og drepa hann síðan með sleggju.

Medvedev segist hafa ráðið sig til að starfa í Wagner hópnum í fjóra mánuði, hann hafði eins og margir íu hópnum setið í rússnesku fangesli. Þegar samningstíminn rann út var hann fyrst framlengdur í sex nýja mánuði og síðan átta. Hann segir að sér hafi verið varpað ofan í holu þegar hann neitaði að skrifa undir framlengingu á samningnum. Hermenn úr flokki hans hafi hjálpað sér að flýja.

Hann segist hafa óttast um eigið öryggi eftir að hann lýsti reynslu sinni í samtölum við þá sem miðla efni á Gulagu.net og þess vegna ákveðið að flýja til Noregs. Í desember birti Medvedev myndskeið á Gulagu.net sem sýndi grimmdina sem ríkir innan Wagner hópsins.

Af hálfu hópsins voru menn úr sérsveit hans sendir á vettvang til að finna Medvedev – sveitin hefur það hlutverk að veita liðhlaupum makleg málagjöld í anda Wagner hópsins.

„Ég varð að flýja í öryggisskyni, þeir hefðu komið og drepið mig,“ segir hann á myndbandi sem norska blaðið VG hefur meðal annars birt.

Í samtali sem tekið var við hann eftir að hann komst til Noregs og birt er á Gulagu segist hann hafa fengið aðstoð frá félaga sínum í Múrmansk til að komast til rússneska landamærabæjarins Nikel. Hann er í um 10 km fjarlægð frá norsku landamærunum. Hann segist hafa farið yfir Pasviki-ána við landamærin á ís.

„Ég heyrði hundum og sá ljós að baki mér. Ég heyrði þá skjóta. Ég sá ljós fyrir framan mig og hljóp í áttina að því,“ segir hann. Medvedev segist hafa komið að húsi og beðið þá sem þar voru að hringja í lögregluna. Hann gekk síðan til móts við lögreglubílinn.

Af hálfu Wagner hópsins er fullyrt að 67 Norðmenn hafi skráð sig sem málaliða í þágu Rússa.

Lögregluembættið í Finnmörk tilkynnti föstudaginn 13. janúar að rússneskur einstaklingur hefði verið tekinn fastur þar sem hann hefði komið ólöglega yfir landamærin.

Tarjei Sirma-Tellefsen, yfirlögregluþjónn í Finnmörk, sagði manninn hafa gert rúmrusk á einkaheimili og beðið um aðstoð.

Brynjulf Risnes, norskur lögfræðingur Medvedevs, segir við norska blaðið VG að umbjóðandi sinn sé úrvinda eftir flóttann. Hann búi hins vegar yfir upplýsingum sem geti haft mikið gildi við skráningu á stríðsglæpum.

„Að sjálfsögðu verður sannleiksgildi orða hans rannsakað og hvort hann hafi brotið gegn lögum sjálfur. Hann fullyrðir að svo sé alls ekki – hann hafi ekki gert annað en fara að fyrirmælum og hann hafi ekki átt samskipti við neina almenna borgara vegna stríðsaðgerðanna.“

Lögfræðingurinn staðfestir að Medvedev hafi sótt um pólitískt hæli í Noregi.

Norska ríkisútvarpið, NRK, segir að norska öryggislögreglan, PST, hafi komið að úrvinnslu á máli flóttamannsins strax á fyrstu stigum þess og taki afstöðu til hvort það falli undir hlutverk hennar og skyldur.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …