
Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs (VG) vill að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður þjóðaröryggisráðs Íslands, beiti „sér fyrir endurskoðun þjóðaröryggisstefnu Íslands með friðarmál í forgrunni,“ eins og segir í ályktun ráðsins sem samþykkt var á fundi þess laugardaginn 13. október.
VG er andvígt aðild Íslands að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur hvað eftir annað sagt að í embætti sínu fylgi hún ályktun alþingis í þjóðaröryggismálum og lögum um þjóðaröryggisráð.
Í ályktun flokksráðsins er minnt „á þá mikilvægu þætti núverandi þjóðaröryggisstefnu sem snúa að raunverulegum öryggismálum Íslendinga, svo sem fæðuöryggi, netöryggi,varnir gegn náttúruvá og réttinn til að lifa án ofbeldis“.
VG vill ekki að öryggi Íslands snúist um „að viðhalda heimsmyndinni eins og hún er með drottnun Vesturlanda, hernaðarlegum íhlutunum þeirra um heim allan og vopnakapphlaupi“.
Í ályktun fundarins er ekki lýst hver er heimsmynd flokksráðsins en það vill hins vegar „segja upp varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna sem þjónar eingöngu hagsmunum Bandaríkjanna. Bandaríkjaher á ekki að vera með útibú á Keflavíkurflugvelli fyrir hergögn sín og heræfingar sem eru dulbúin sem hluti af öryggi Íslands,“ eins og segir í ályktuninni.
Þegar ákveðið var á vettvangi NATO árið 2011 að gera loftárásir á Líbíu undir merkjum bandalagsins átti VG aðild að ríkisstjórn með Samfylkingunni og frá henni voru Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Ekki er minnst á þessa atburði í ályktun flokksráðsins en fullyrt að íslensk stjórnvöld hafi „sjálfkrafa“ stutt „árás Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á Sýrland í apríl síðastliðnum“. Þessar loftárásir voru gerðar eftir að einræðisherra Sýrlands beitti, í skjóli Rússa, efnavopnum gegn almennum borgurum í Sýrlandi.
Þeim kafla ályktunarinnar sem snertir aðildina að NATO lýkur á þessum orðum:
„Þrátt fyrir andstöðu flokksráðsfundar við aðild Íslands að NATÓ má gleðjast yfir því að Katrín Jakobsdóttir hafi nýtt veru sína á ríkisoddvitafundi NATÓ í júlí síðastliðnum til þess að ræða friðsamlegar lausnir, afvopnunarmál, loftslags- og jafnréttismál.“
Flokksráðsfundurinn mótmælti í sérstakri ályktun „harðlega fyrirhuguðum hernaðaræfingum NATO á Suðurnesjum og í Þjórsárdal á næstu dögum, auk skipulagsráðstefnu sem fylgir í kjölfar hennar um frekari æfingar af enn stærri skala.“
Í texta ályktunarinnar segir:
„Von er á tíu herskipum og fjögur hundruð landgönguliðum til Íslands í þeim blekkingarleik að ætla að verja öryggi Íslands. Ekki er hægt að líta framhjá því að í þessari aðgerð fara fram æfingar í að ná völdum yfir og myrða annað fólk. Sömu hermennirnir og koma hingað munu verða sendir til Miðausturlanda þar sem þeir myrða og pynta almenna borgara með tækninni sem þeir æfðu á Íslandi.“
Um 50.000 hermenn og aðrir frá öllum 29 aðildarríkjum NATO og Finnlandi og Svíþjóð taka þátt í þessari æfingu, Trident Juncture 2018. Henni er ætlað að æfa viðbrögð í samræmi við 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt NATO-ríki sé árás á þau öll.
Í ályktuninni er þetta kallað „morðæfing“ og því fagnað þingmenn VG hafi lýst óánægju með hana.
Þessum kafla ályktunar flokksráðsins lýkur á þessum orðum:
„Aðild Íslands að NATO getur aldrei samræmst raunverulegri friðarstefnu heldur skuldbindur hún ríkið til þess að leyfa morðæfingar á Íslandi, greiða fé úr ríkissjóði fyrir hernaðaraðgerðir í fjarlægum heimshlutum og taka afstöðu með heimsvaldastefnu Vesturvelda. Við skorum á Alþingi að koma í veg fyrir þessa fyrirhuguðu æfingu og ráðstefnu hér á landi og segja Ísland tafarlaust úr hernaðarbandalaginu NATO.“
Undanfari Trident Juncture verður hér á landi 15. til 17. október.