Home / Fréttir / Flókið að skapa stöðugleika á norðurslóðum vegna vaxandi ágengni Rússa

Flókið að skapa stöðugleika á norðurslóðum vegna vaxandi ágengni Rússa

Bandarískir hermenn á norðurslóðaæfingu í Noregi.

Herstjórnendur frá Bandaríkjunum og Noregi hafa lagt mat á vaxandi áhuga Rússa á norðurslóðum og sífellt meiri sóknarstöðu herafla þeirra og hvernig eigi að bregðast við breyttum aðstæðum og skapa jafnvægi með fælingarmætti sem leiði ekki til stigmögnunar.

Í liðinni viku var efnt til málþings á vegum Pólstofnunar hugveitunnar Wilson Center í Washington þar sem fulltrúar herafla Bandaríkjanna og Noregs báru saman bækur sínar og ræddu stöðuna á norðurslóðum í ljósi vaxandi umsvifa Rússa.

Þriðjudaginn 21. febrúar segir Malte Humpert á norsku vefsíðunni High North News frá málþinginu.

„Rússar ógna stöðugleika á norðurslóðum (e. Arctic stability)“ er haft eftir Dan Dwyer flotaforinga, yfirmanni 2. flota Bandaríkjanna, Atlantshafsflotanum, sem var virkjaður að nýju árið 2018 eftir að hafa verið lagt árið 2011.

Í júlí 2022 birtu Rússar nýja flotastefnu þar sem Íshafinu og norðurslóðum var skipað í forgang sem mikilvægasta hafsvæði þeirra og staðfest að þar yrði varist „af öllu afli“. Athygli var beint að íshafsströnd Rússlands og jafnframt að nýjum flugskeytum og eldflaugum til að verja Norðurflotann.

Dan Dwyer flotaforingi segir að taka verði mið af breyttri afstöðu Rússa með stefnunni sem birt var í júlí 2022. Áður en hún var kynnt var forgangsröðin á þann veg í flotastefnu Rússa að Íshafið var númer þrjú í röðinni en Atlantshafið númer eitt. Nú átti Rússar sig á því að Íshafið og norðurslóðir skipti höfuðmáli fyrir efnahag þeirra þegar hafísinn hopar og haga þurfi skipan heraflans í samræmi við það.

Þessi breytta áhersla sést nú þegar litið er til vopnabúnaðar á svæðinu og æfinga að mati flotaforingjans.

Rússar hafi í ágúst 2022 birt áætlanir um nýtt beitiskip búið langdrægum flaugum og aðeins mánuði síðar sendu þeir nokkra kafbáta til æfinga í austurhluta Íshafsins í kringum Umka til að sýna hvers þeir eru megnugir í hánorðri.

Svipaðar skoðanir komu fram hjá bandaríska flotaforingjanum Daryl Caudle, yfirmanni bandarísku flotastjórnarinnar.

Hann sagði að landfræðilega væru Rússar ráðandi á norðurslóðum og stæðu þess vegna betur að vígi en aðrir þegar litið væri til getu og mannvirkja. Þeir hefðu lögmætra fullveldishagsmuna að gæta og hefðu gert Norðurflotann að sérstakri herstjórn og þar með styrkt stöðu hans. Þeir ættu stærsta flota ísbrjóta í heiminum og gætu sumir þeirra borið stýriflaugar af Kalibr gerð. Loftvarnakerfi þeirra í norðri mætti virkja með skömmum fyrirvara, Norðurflotinn væri hreyfanlegur og vel vopnum búinn.

Flotaforinginn sagði að til að halda aftur af Norðurflotanum og hindra sókn hans á úthöfin yrði að halda úti eftirliti í Íshafinu en einnig á Eystrasalti og í GIUK-hliðinu, frá Grænlandi um Ísland til Bretlands. Á Kólaskaganum í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð fyrir austan norsku landamærin væru rússnesk S-400 flugskeytakerfi, langdrægar, nákvæmar stýriflaugar, hannaðar til árása.

Daryl Caudle flotaforingi sagði að þetta sýndi að það væri mikill hernaðarmáttur á þessum slóðum, þarna væri norðurvængur NATO þar sem Norðmenn, Svíar og Finnar tækju höndum saman með samstarfsríkjum sínum.

Af hálfu Noregs tók Egil Vasstrand, kafteinn og flota- og vara-hermálafulltrúi norska sendiráðsins í Washington, þátt í málþinginu. Hann var sammála því mati bandarísku flotaforingjanna að hlutur Norðmanna skipti miklu þegar mótuð væri fælingarstefna fyrir þetta svæði og lagður grunnur að stöðugleika þar.

Hann sagði að norsk stefna í öryggismálum hefði mótast af fælingu annars vegar í krafti NATO-aðildar Noregs og hins vegar af viðleitni til að skapa traust í samskiptum við Rússa með viðræðum og sjálfskipuðum takmörkunum á hernaðarlegum umsvifum. „Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki á svæðinu hafa verið mjög mikilvæg fyrir Noreg,“ sagði Egil Vasstrand.

Hann benti á að stríðið í Úkraínu leiddi til þess að öllum samtölum við Rússa hefði verið hætt bæði í tvíhliða og fjölþjóðlegum samskiptum. Norðmenn reyndu þó að halda einhverju sambandi við Rússa. Ekki væri unnt að rjúfa allt samband vegna öryggis sjófarenda, leitar og björgunar, eða fiskveiðistjórnunar.

Þá sagði hann að það skipti miklu til að tryggja stöðugleika að sérstakt fjarskiptakerfi tengdi aðgerðastjórn norska hersins og yfirstjórn Norðurflotans í því skyni að „útiloka ónauðsynlega stigmögnun og misskilning“.

Vasstrand sagði að við mótun stefnu Noregs skipti hánorðrið höfuðmáli.  Strategískt gildi norðurslóða fyrir Noreg væri reist á tveimur meginstoðum: hagrænu gildi fyrir þjóðarbúið og landfræðilegri nálægð við Rússland. Svæðið hefði verið skilgreint sem lágspennusvæði síðan kalda stríðinu lauk en sú staða gæti augljóslega breyst til meiri spennu með hliðsjón af því að strategískt gildi þess ykist og keppni milli hagsmunaríkja þar. Þá setti sóknarstaða meiri svip á rússneska heraflann þar.

Gildi norðurslóða á ekki eftir að minnka fyrir Rússa þegar fram líða stundir að mati Vasstrands. Líkur á að Rússar grípi til vopna telji þeir sér ógnað á þessum slóðum aukast þá samhliða.

Við þessar aðstæður leggja Norðmenn áherslu á að styrkja samstarf sitt við Bandaríkjamenn og hafa nýlega staðfest aukið hernaðarlegt samstarf sitt með nýju samkomulagi.

Á málþinginu sagði Vasstrand að norskir stjórnmálamenn hefðu jákvæða afstöðu til þess að auka viðveru og aðgerðir bandalagsríkja á norsku yfirráðasvæði og á höfunum í hánorðri. Vandinn væri að halda þannig á málum að á skilvirkan hátt væri unnt að treysta nægan fælingarmátt án þess að það leiddi til alvarlegrar stigmögnunar á svæðinu.

„Til að standa þannig að verki verðum við að skilja aðstæður á svæðinu og markmið Rússa og það er ekki alltaf auðvelt,“ sagði Egil Vasstrand að lokum.

 

Heimild: High North News

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …