Home / Fréttir / Fljótandi jarðgas með skipum í austur og vestur frá Jamal-skaga

Fljótandi jarðgas með skipum í austur og vestur frá Jamal-skaga

Gasflutningaskip í Sabetta-höfn á Jamal-skaga,
Gasflutningaskip í Sabetta-höfn á Jamal-skaga,

Novatek, stærsti sjálfstæði jarðgasframleiðandi Rússlands, hefur flutt út 3 milljónir tonna af fljótandi jarðgasi (LNG) frá höfninni Sabetta við vinnslusvæði sitt á Jamal-skaga í Síberíu frá því í desember 2017. Gasið er mjög samkeppnisfært á heimsmarkaði og er flutt til Asíu, Evrópu og Bandaríkjanna eftir markaðsverði hverju sinni.

Fyrir skömmu luku tvö LNG-flutningaskip, Eduard Toll og Vladimir Rusanov, siglingu sinni frá Sabetta austur eftir leiðinni fyrir norðan Rússland, Norðurleiðinni, til LNG-móttökustöðvar skammt frá Nantong í Kína. Skipin sigldu án fylgdar ísbrjóta enda eru þau í flota 15 sérsmíðaðra skipa til siglinga hjálparlaust í gegnum hafís.

Almennt sigla skipin frá Sabetta vestur á bóginn til umskipunarhafnar, Rotterdam, þar sem fljótandi jarðgasið fer um borð í skip sem ekki eru sérsmíðuð til siglinga í Norður-Íshafi og þau sigla með farminn um Súez-skurð, Malakka-sund og til Kína. Sú ferð tekur 35 daga en með því að fara Norðurleiðina í austur til Kína má stytta ferðina í 19 daga.

Kortið sýnir siglingaleiðirnar.
Kortið sýnir siglingaleiðirnar.

Við komu skipanna til Jiangsu Rudong skipulagði Novatek athöfn með þátttöku Alexanders Novaks, orkumálaráðherra Rússlands, og Nur Bekri, orkumálastjóra Kína.

Novatek hóf að flytja olíu þessa leið austur til Kína árið 2010 en þetta var í fyrsta sinn sem LNG-skip voru send beint austur til Kína frá höfninni í Sabetta.

Þegar komið er með fljótandi jarðgasið, það er kælt niður í 160°og verður fljótandi við það, til Rotterdam er annaðhvort unnt að setja það inn á evrópska gasleiðslukerfið eða um borð í skip sem sigla austur á bóginn um Miðjarðarhaf eða í vestur til móttökustöðvar í Boston í Bandaríkjunum. Ákvörðun um lokaáfangastað ræðst mjög af markaðsverði.

Gassala um borð í skip í Evrópu sem sigla til Asíu er ekkert nýmæli ef þar fæst hagstæðara verð en á evrópskum markaði. Í desember 2017 kom gas frá Jamal inn á þennan markað í fyrsta sinn.

Nú yfir sumarmánuðina þegar gasflutningaskipin frá höfninni í Sabetta á Jamal-skaga geta siglt ein og óstudd beint austur til Kína fer minna magn af gasi til Evrópu. Áætlað er að þriðja skipið frá Sabetta verði í Kína þriðjudaginn 31. júlí

Talið er að Jamal LNG geti sparað 46 milljón dollara í flutningskostnað með því að sigla beint í austur frá Sabetta til Kína í stað þess að umskipa í Rotterdam. Yfir háveturinn er þó nauðsynlegt snúa skipunum aftur í vestur og til Evrópu vegna mikillar ísmyndunar fyrir austan Sabetta.

Yfirvöld hafnanna í Rotterdam í Hollandi og Montoir í Frakklandi þurfa þó ekki að örvænta vegna sumarsiglinganna austur á bóginn frá Jamal. Áform eru um að önnur framleiðslulína Jamal LNG komist í gagnið í næsta mánuði sem tvöfaldar þörfina fyrir flutning með skipum. Talið er að gasflutningur sjóleiðis frá Jamal til Evrópu eigi eftir aukast.

Heimild: Bloomberg

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …