
Herlögregla lokaði sögufrægum Serafimovskoj-kirkjugarðinum í St. Pétursborg í Rússlandi laugardaginn 6. júlí þegar 14 rússneskir kafbátaliðar voru bornir þar til grafar. Þeir létust í eldsvoða um borð kjarnorkukafbáti skammt frá landamærum Noregs við Kóla-skaga. Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur ekkert sagt um sjóslysið.
Fjölmiðlamenn fengu ekki að vera við útförina. Þar mátti hins vegar sjá ýmsa háttsetta fulltrúa hersins og borgaralegra yfirvalda.
„Þið verðið að sýna því skilning að nöfn flestra hér eru leyndarmál og ekki má sýna andlit þeirra,“ sagði talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins við AFP-fréttastofuna.
Sjóðliðarnir fórust fyrr í vikunni í eldsvoða um borð í kjarnorkuknúnum kafbáti í Barentshafi. Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að eldurinn hafi kviknað í rafhlöðuhólfi kafbátsins og ekki haft áhrif á kjarnakljúf hans. Áhöfninni tókst að ráða niðurlögum eldsins. Eiturgufur urðu hins vegar 14 sjóliðum að aldurtila.
Rússnesk yfirvöld segja að áhöfn kafbátsins hafi verið við rannsóknir á hafsbotninum við norðurströnd Rússlands og Noregs. Talsmaður Pútíns segir að einstök atvik slyssins séu „ríkisleyndarmál“.
Margir sérfræðingar draga hins vegar skýringar rússnesku ríkisstjórnarinnar í efa. Næstum allir sem týndu lífi eru háttsettir og margverðlaunaðir foringjar, tveir þeirra höfðu hlotið heiðursorðuna Hetja Rússlands. Helmingur þeirra sem fórst hafði öðlast réttindi til að stjórna kjarnorkuknúnu skipi.
Rússnesk yfirvöld hafa ekki greint nákvæmlega frá því af hvaða gerð kjarnorkukafbáturinn er en í rússneskum fjölmiðlum segir að eldurinn hafi kviknað í litlum A-12 kafbáti sem sé kallaður Losharik. Þessir kafbátar voru hannaðir til að sökkva mjög djúpt vegna rannsókna eða sérstakra aðgerða. Fjölmiðlar segja að nota megi kafbátinn til að tengjast eða jafnvel höggva á neðansjávar-fjarskiptastrengi.
Í samtali við þýsku fréttastofuna DW sagði Viktor Barents, gamalreyndur her-blaðamaður, að rússneski herinn hefði í raun sagt óvenjulega mikið um þetta slys. Að miðla upplýsingum á þennan veg væri „einsdæmi í sögu sovéska eða rússneska hersins,“ sagði hann. „Við erum teknir til við að ljúga minna.“
Eldurinn vakti minningar um slysið hörmulega árið 2000 um borð í kafbátnum Kursk þegar 118 sjóliðar féllu eftir sprengingu við heræfingar. Sagt er að sjóliðarnir 14 hafi nú verið jarðsettir skammt frá Kursk-áhöfminni í Serafimovskoj-kirkjugarðinum.