Home / Fréttir / Fjórtan flugherir með 150 orrustuþotur æfa í hánorðri

Fjórtan flugherir með 150 orrustuþotur æfa í hánorðri

F-35 orrustuþotur.

Finnar taka að sér að skipuleggja æfingu flugherja á norðurslóðum sem hefst í lok mánaðarins. Æfing sem þessi er á tveggja ára fresti undir heitinu Arctic Challenge Exercise (nú ACE 23). Flugvélarnar hafa aðstöðu í fjórum flugherstöðvum í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. Alls taka 150 orrustuþotur frá 14 löndum þátt í æfingunni. Þá sendir NATO nokkrar AWACS stjórn- og ratsjárvélar á vettvang.

Æfingin hefst 29. maí og fer fram daglega í háloftunum til 9. júní. Æfingasvæðið er frá rússnesku landamærunum í austri að strönd Noregshafs í vestri.

Ørland flugherstöðin nærri Þrándheimi er aðgerðastöð norsku vélanna sem taka þátt í æfingunni. Þaðan er flogið F-35 orrustuþotum en flugherstöðinni við Bodø var lokað í fyrra þegar F-16 þoturnar voru teknar úr notkun.

Í Svíþjóð verður Kallax flugherstöðin í Luleå hluti æfingarinnar og flugvellirnir í Rovaniemi og Pirkkala í Finnlandi.

Tæplega 3.000 manns fylgja orrustuþotunum 150.

Belgar senda F-16 orrustuþotur. Hollendingar, Bandaríkjamenn og Ítalir verða með F-35 auk Tékka sem nota JAS Gripen þotur. Um 50 vélar verða sendar frá Ørland flugherstöðinni, þar af 6 til 10 norskar F-35. Annars dreifa vélarnar sér á flugvelli í Svíþjóð og Finnlandi.

Per Erik Solli, herfræðingur við Norsku utanríkismálastofnunina (NUPI) segir að

Arctic Challenge Exercise hafi fyrst komið til sögunnar fyrir 10 árum en hafi nú fengið aukið „strategískt gildi“.

Hann segir að æfingin hafi aldrei áður verið svona viðamikil. Árin 2017 og 2019 hafi um 100 flugvélar tekið þátt en um 70 2021 vegna heimsfaraldursins.

Fyrir utan Finna, Svía og Norðmenn eru þátttakendur frá Danmörku, Bretlandi, Kanada, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Sviss, Hollandi, Tékklandi, Belgíu og Bandaríkjunum.

Tvær bandarískar B-52 sprengjuþotur tóku þátt í ACE 17. Ekki er gert ráð fyrir þátttöku þeirra núna. Í mars sl. flugu tvær bandarískar B-52 þotur norður fyrir heimskautsbaug yfir Tromsø og Andøya í Norður-Noregi og síðan suður yfir Danmörku. Þær tóku eldsneyti á lofti yfir Póllandi og héldu síðan fyrir austan Svíþjóð inn á Finnska flóa og þaðan yfir Eystrasaltslöndin. Var þetta í fyrsta sinn sem B-52 vélar fóru þannig í einni lotu umhverfis Skandinavíuskaga og yfir Eystrasaltslöndin.

 

Heimild. Barents Observer

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …