Home / Fréttir / Fjórir sakaðir um árásina á MH17

Fjórir sakaðir um árásina á MH17

 

Eftuir ítarlega rannsókn tókst að raða saman stjórnklefa vélarinnar.
Eftir ítarlega rannsókn tókst að raða saman stjórnklefa vélarinnar.

Þrír Rússar og einn Úkraínumaður eru sakaðir um að hafa skotið niður MH17 flugvélina á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur yfir Úkraínu árið 2014. Meðal þeirra er Igor Girkin, „varnarmálaráðherra“ Donetsk-lýðveldisins svonefnda. Það er rannsóknarnefnd undir forystu Hollendinga sem birtir sakargiftirnar.

Þeir sem um ræðir eru:

Igor Girkin/Strelkov, Rússi og fyrrverandi ofursti í rússnesku FSB-öryggislögreglunni. Hann var kallaður „varnarmálaráðherra“ eftir að aðskilnaðarsinnar stofnuðu Donetsk-lýðveldið.

Sergeij Dubinskí í njósnadeild hers aðskilnaðarsinna.

Oleg Pulatov, fyrrv. rússneskur hermaður, undirmaður Dubinskís.

Leonid Kharsjenko, Úkraínumaður sem stjórnaði sveit aðskilnaðarsinna þegar árásin var gerð.

Wilbert Paulissen, yfirlögregluþjónn í hollensku ríkislögreglunni og fulltrúi sameiginlegu rannsóknarnefndarfinnar, sagði miðvikudaginn 19. júní að þetta markaði upphaf sakamáls í Hollandi.

Mennirnir fjórir verða kallaðir fyrir dómara í Hollandi í mars 2020 sakaðir um morð. Gefnar verða út alþjóðlegar handtökuskipanir gegn þeim.

MH17 var skotin niður á flugi yfir landi undir stjórn aðskilnaðarsinna í skjóli Rússa. Allir um borð, 298, mest Hollendingar, týndu lífi.

Í fyrra varð ljóst eftir ítarlega rannsókn að rússnesk BUK-skotflaug grandaði vélinni. Hafði hún verið flutt frá Kursk í Rússlandi til Úkraínu á farartækjum rússneska hersins.

 

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …