Home / Fréttir / Fjórða herflug Rússa á tveimur vikum – nú suður í Biscaya-flóa

Fjórða herflug Rússa á tveimur vikum – nú suður í Biscaya-flóa

Á vefsíðunni BarentsObserver gerðu menn þetta kort til að sýna flugleið rússnesku hervélanna miðvikudaginn 11. mars.
Á vefsíðunni BarentsObserver gerðu menn þetta kort til að sýna flugleið rússnesku hervélanna fimmtudaginn 12. mars.

Tvær rússneskar Tu-160 hljóðfráar sprengjuþotur flugu fimmtudaginn 12. mars suður með strönd Noregs, á milli Íslands og Bretlands, með vesturströnd Írlands suður í Biscaya-flóa áður en þeim var aftur snúið til heimavalla á Kólaskaga, austan við norðurlandamæri Noregs. Frá lokum kalda stríðsins hefur rússneskum hervélum aldrei fyrr verið flogið svo langt suður við vesturströnd Evrópu.

Þetta var í fjórða sinn á aðeins tveimur vikum sem vélum úr rússneska Norðurflotanum er flogið í áttina að Íslandi og GIUK-hliðinu. Jafnt og þétt hafa flugferðirnar lengst í suðurátt.

Norskar orrustuþotur fylgdust fyrst með rússnesku vélunum. Bretar sendu síðan þotur sínar frá Lossiemouth í Skotlandi og áður en Rússarnir sneru aftur heim hafði frönskum orrustuþotum verið flogið að þeim.

Mike Wigston, yfirmaður breska flughersins, sagði um ferðir Rússanna:

„Þessar rússnesku sprengjuvélar fara ekki að alþjóðareglum um flugumferð, þær eru hættulegar flugvélum okkar og við viljum þær ekki inn á flugsvæði okkar.“

Einn bresku flugmannanna sem fór í veg fyrir rússnesku vélarnar sagði:

„Á fáum stöðum heims er flugumferð meiri en í nágrenni Bretlands og farþegavélum er stöðugt flogið hér á þessu svæði, með ferð okkar gátum við tryggt að breskir flugumferðarstjórar hefðu stjórn á umferðinni á þessari fjölförnu leið þrátt fyrir hættuna af ferðum Rússa.“

Tu-142 vélum Norðurflotans var flogið suður með Noregi 26. og 27. febrúar og síðan að nýju 7. mars þegar vélarnar fóru lengra suður en áður. Fimmtudaginn 12. mars voru Tu-160 sprengjuþotur, Blackjack-þotur,  sendar í lengsta flugið.

Bandarískur kafbátur við stöðina Sea Dragon á Norður-Íshafi.
Bandarískur kafbátur við stöðina Sea Dragon á Norður-Íshafi.

Á vefsíðunni BarentsObserver segir að um þessar mundir stundi tveir bandarískir kafbátar æfingar undir ísnum í Norður-Íshafi (ICEX 2020). Þar hafi verið komið upp bráðabirgðabúðum á ísbreiðunni. Um er að ræða USS Toledo af Los Angeles-gerð og USS Connecticut af Seawolf-gerð. Bátarnir hafi nú þegar brotist tvisvar sinnum upp í gegnum ísinn, 4. mars og 7. mars í nágrenni við stöð sem flotinn kalli Camp Sea Dragon.

Miðvikudaginn 11. mars birtist á vefsíðu Radio Canada frétt um að tvær rússneskar Tu-142 vélar hefðu sést á lofti yfir Beaufort-hafi. Vélarnar komu frá flugherstöð Rússa í Asíu, austasta hluta Rússlands. Kanadískum þotum var flogið í veg fyrir vélarnar undan norðurströnd Alaska.

Rob Huebert, kanadískur herfræðingur, sagði að Rússar sendu vélarnar ekki aðeins til að fylgjast með bandarískum æfingum heldur einnig til að sýna afl sitt til að bregðast við því sem Bandaríkjamenn eða NATO tækju sér fyrir hendur á norðurslóðum.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …