Home / Fréttir / Fjölgun farand- og flóttafólks á grísku eyjunum – leiðtogar 27 ESB-ríkja leita samkomulags um hertar gagnráðstafanir

Fjölgun farand- og flóttafólks á grísku eyjunum – leiðtogar 27 ESB-ríkja leita samkomulags um hertar gagnráðstafanir

Evrópskir landamæraverðir við störf í Búlgaríu.
Evrópskir landamæraverðir við störf í Búlgaríu.

Þeim tók að fjölga í fyrri viku sem flýja frá Tyrklandi til Grikklands í leit að öryggi sem hælisleitendur eða að betri lífskjörum. Þetta segir í frétt The New York Times (NYT) fimmtudaginn 15. september. Blaðamaðurinn segir að rúmlega þúsund manns, Sýrlendingar, Afganir, Pakistanir og Írakar hafi komist til Grikklands í vikunni sem leið og vitnar í Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Fjöldinn sé ekki eins mikill og í fyrra þegar 1.700 manns fóru á bátum minni landanna dag hvern. Hann sé hins vegar hærri en 50 á dag eins og fjöldinn hefur verið síðan Tyrkir sömdu við ESB um að stemma stigu við ferðum farand- og flóttafólks frá landi sínu til Grikklands.

Blaðamaður NYT segir að ýmislegt bendi til að samningur ESB og Tyrkja sé að bresta. Hann segir enga einhlíta skýringu á hvers vegna aðkomufólkið sem búið hafi í Tyrklandi um nokkurt skeið hugsi sér nú til hreyfings. Þar kunni að ráða einhverju að fréttir berist um að ef til vill komi ekki til þess að ESB standi skil á öllum milljörðum evranna sem heitið var að greiða til að létta undir með fólkinu.

Þá hafi fólkið áttað sig á eftir nokkurra mánaða reynslu að grísk yfirvöld sendi ekki Sýrlendinga til baka til Tyrklands og heitið hafði verið. Fyrir aðra sé ferðin yfir til Grikklands einfaldlega fær fjárhagslega núna þar sem gjaldið hafi lækkað úr 1.500 dollurum á mann í 500 dollara. Þá kunni komandi vetrarveður einnig að hafa áhrif.

Frá því að tyrknesk stjórnvöld brugðust við misheppnaðri valdaránstilraun í landinu 15. júlí 2016 með víðtækum hreinsunum og fangelsunum hefur sambandið milli Tyrkja og ESB versnað mikið. Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, og Johannes Hahn, viðræðustjóri stækkunarmála, voru nýlega í Ankara til viðræðna við tyrkneska ráðamenn til að reyna að halda lífi í farand-samningi aðila frá því mars þrátt fyrir versnandi samskipti á pólitíska sviðinu.

ESB hét Tyrkjum að greiða þeim rúmlega 6 milljarða dollara til að bæta lífskjör á fjórða milljón Sýrlendinga sem búa í Tyrklandi. Þá hét ESB einnig að hefja að nýju aðildarviðræður við Tyrki. Eftir valdaránstilraunina er það næstum óhugsandi.

Helsta ógnin við samninginn stafar þó af mikilvægasta ákvæði hans fyrir Tyrki: að þeir geti ferðast til Evrópu án vegabréfsáritunar. Tyrkneskir ráðamenn segja að áritanir verði að hverfa úr sögunni í október annars sé samningurinn fokinn út í veður og vind. Gegn þessu verða Tyrkir að þrengja ákvæði laga sinna gegn hryðjuverkum og færa þau að evrópskum kröfum, á því hafa þeir engan áhuga.

Samhliða því sem ráðamenn í ESB glíma við þennan vanda vegna Tyrkja og Grikkja verða þeir einnig að huga að aukinni landamæravörslu á landamærum Tyrklands og Búlgaríu.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í stefnuræðu sinni í ESB-þinginu miðvikudaginn 14. september að hann ætlaði að senda 200 nýja landamæraverði til Búlgaríu og 50 farartæki fyrir lok október.

Þessi má verða til umræðu á fundi leiðtoga 27 ESB-ríkja í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu, föstudaginn 16. september. Þar verður áréttað að hvert ríki beri ábyrgð á gæslu eigin ytri landamæra Schengen-svæðisins en megi aðstoð við gæslu þeirra í gegnum Frontex, Landamærastofnun ESB, sem breytist á næstunni í Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu.

Samhliða þessu verður tekið upp strangt eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins þar sem upplýsingar um alla sem þar fara um verða bornar saman við viðeigandi gagnagrunna. Á þetta jafnt við borgara utan og innan EES/ESB-svæðisins. Í framkvæmd þýðir þetta að vegabréf allra verða skönnuð og skoðuð með vísan til gagnagrunna þegar komið er inn á svæðið eða farið út af því.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði í opnu bréfi fyrir fundinn í Bratislava að þetta aukna eftirlit væri óhjákvæmilegt til að til að tryggja að „hugsanlegir hryðjuverkamenn kæmust ekki hindrunarlaust inn“. Tusk vill að fundurinn í Bratislava marki „þáttaskil“. Þar komi í ljós vilji leiðtoganna til að hafa stjórn á málum. „Við verðum að sýna borgurum okkar að við séum fús og höfum getu til að verja þá gegn því að upplausnin frá árinu 2015 endurtaki sig.“

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …