Home / Fréttir / Fjöldamótmæli gegn Pútín í austri

Fjöldamótmæli gegn Pútín í austri

Frá mótmælunum í austasta hluta Rússlands.
Frá mótmælunum í austasta hluta Rússlands.

Fjöldamótmæli gegn Valdimir Pútin Rússlandsforseta og stjórnarháttum hans voru enn á ný ú borginni Khabarovsk í austasta hluta Rússlands laugardaginn 18. júlí. Tugir þúsunda gengu um götur borgarinnar og lýstu vanþóknun sinni á að héraðsstjórinn hefði verið handtekinn og fluttur til Moskvu, sakaður um aðild að nokkrum morðum.

Mótmælendur höfðu opinberar viðvaranir að engu en borgaryfirvöld vöruðu við mannsöfnuði af ótta við kórónuveiruna og hótanir hryðjuverkamanna. Borgin er í um rú 6.100 km fjarlægð frá Moskvu. Deilt er um hve margir tóku þátt í aðgerðunum 18. júlí og eru tölurnar á bilinu 15.000 til 50.000 manns.

Hvern dag liðinnar viku lét almenningur í ljós reiði yfir að Sergei Furgal héraðsstjóri skyldi handtekinn auk þess sem stjórn Rússlands var gagnrýnd.

Furgal héraðsstjóri var handtekinn 9. júlí og sendur í flugvél til Moskvu þar sem hann var úrskurðaður í tveggja mánaða gæsluvarðhald. Rússneska rannsóknarnefndin sem fer með mál af þessu tagi segir að hann sé grunaður um aðild að nokkrum morðum á kaupsýslumönnum á árunum 2004 og 2005.

Héraðsstjórinn segist saklaus. Á þeim tíma sem brotin voru framin stundaði hann viðskipti og flutti inn stál og timbur. Íbúar í Khabarovsk segja ásakanir á hendur Furgal úr lausu lofti gripnar. Þá er þeim einnig misboðið við að rússnesk stjórnvöld svipti þá á einni nóttu þann sem þeir hafa kosið til að fara með stjórn héraðs síns.

Furgal var kjörinn héraðsstjóri árið 2018 sem fulltrúi þjóðernissinnaða Frjálslynda lýðræðisflokksins. Hann sigraði óvænt frambjóðanda flokks Pútíns, Sameinaðs Rússlands.

Eftir tveggja ára setu sem héraðsstjóri hefur Furgal aflað sér almennra vinsælda fyrir að vera „héraðsstjóri fólksins“. Hann lækkaði eigin laun, stóð fyrir sölu á dýrri lystisnekkju sem forveri hans hafði keypt, ræddi við fólk sem kom saman til að mótmæla og beitti sér fyrir verulegri lækkun á flugfargjöldum fyrir íbúa afskekktra svæða.

Rússlandsforseti hefur ekki enn skipað nýjan héraðsstjóra í stað Furgals. Kröfur um að dómari í Khabarovsk dæmi í máli Furgals. „Við kusum hann og við eigum að dæma hann,“ segja mótmælendur. Furgal sat í áratug á þingi Rússlands og þá var aldrei minnst einu orði á aðild hans að fjölda morða.

Þjóðernissinninn Vladimir Zhirinovskíj er leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins, smáflokks sem áratugum saman hefur lifað í Rússlandi og þykir mörgum að stjórnarandstaða hans einkennist af sýndarmennsku. Furgal tókst engu að síður að fella frambjóðanda flokks Pútins árið 2018. Nú segir Zhirinovskíj að Pútin skipi líklega nýjan héraðsstjóra til bráðabirgða mánudaginn 20. júlí og sér hafi verið lofað að hann kæmi úr Frjálslynda lýðræðisflokknum.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …