
Dómarar, herforingjar og landstjórar eru í hópi tæplega 9.000 manna sem höfðu verið handteknir í Tyrklandi síðdegis mánudaginn 18. júlí frá því að tilraun var gerð þar til valdaráns í landinu að kvöldi föstudags 15. júlí. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur heitið því að hreinsa út „vírus“ valdaránsmanna. Skellir forsetinn skuldinni á kennimanninn Fetullah Gulen sem býr í útlegð í Bandaríkjunum og fylgismenn hans. Húsleit var gerð í skóla flughersins í Istanbul að morgni mánudags 18. júlí. Segja tyrkneskir ríkisfjölmiðlar að Akin Ozturk, fyrrverandi flugherforingi, hafi við yfirheyrslu viðurkennt að hafa skipulagt valdaránið.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ítrekaði í Brussel mánudaginn 18. júlí að Bandaríkjastjórn styddi lýðræðislega kjörna stjórn Tyrklands en varaði við mannaveiðum og hefndaraðgerðum.
„Við munum að sjálfsögðu styðja að þeir sem sekir eru um valdaránstilraunina sæti refsingu lögum samkvæmt en við vörum jafnframt við að gengið sé fram meira en góðu hófi gegnir,“ sagði Kerry.„NATO-aðild er reist á að virðingu fyrir lýðræðislegum grundvallaratriðum,“ sagði hann.
Talsmaður Kerrys sagði síðar að ekki bæri að líta á þessi orð sem viðvörun um að Tyrkir kynnu að verða brottrækir úr NATO. „Það er ótímabært “ að tala um að aðild Tyrkja að NATO sé í hættu.
Af hálfu þýskra stjórnvalda hefur verið kveðið fastar að varnaðarorðum en þau segja að ESB-aðildarviðræðum við Tyrki verði hætt samþykki tyrkneska þingið að innleiða dauðarefsingu að nýju. Hún var afnumin árið 2004 til að búa í haginn fyrir ESB-aðild landsins. Þá hafði enginn verið líflátinn að fyrirmælum dómara síðan 1984.
„Verði dauðarefsing innleidd í Tyrklandi jafngildir það endalokum ESB-aðildarviðræðnanna,“ sagði Steffen Seibert, talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar mánudaginn 18. júlí.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis mánudaginn 18. júlí þar sem sagði meðal annars:
„Ég hef rætt við Recep Tayyip Erdogan forseta eftir valdaránstilraunina í Tyrklandi. Ég fagna hve mikinn stuðning almenningur og allir stjórnmálaflokkarnir sýna lýðræðinu og lýðræðiskjörinni ríkisstjórn. Tyrkneska þjóðin hefur sýnt mikið hugrekki. […]
Tyrkjum er eins öllum öðrum bandalagsþjóðum mikilvægt að tilheyra einstöku samfélagi um gildi til að tryggja fulla virðingu fyrir lýðræðinu og stofnunum þess, stjórnskipuninni, lögum og rétti og grundvallarfrelsi.“
Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna hittust í Brussel mánudaginn 18. júlí og lagði Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, áherslu á að farið yrði að lögum í Tyrklandi. „Við þurfum að sýna virðingu, Tyrkir verða að virða lýðræði, mannréttindi og grundvallarréttindi,“ sagði hún.
Johannes Hahn kemur fram fyrir hönd ESB í aðildarviðræðunum við Tyrki. Hann sagði að svo virtist sem tyrkneska ríkisstjórnin hefði átt í fórum sínum handtökulista sem hefðu verið samdir fyrir valdaránstilraunina.
Stjórnvöld í Tyrklandi segja að þau hafi aflað upplýsinga um „leynilegar stofnanir“ innan ríkiskerfisins fyrir atburðina föstudaginn 15. júlí.
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrkja, sagði mánudaginn 18. júlí að 208 „píslarvottar“ hefðu týnt lífi í valdaránstilrauninni, þar af 60 lögreglumenn, þrír hermenn og 145 almennir borgarar. Þá hefðu 1.491 særst. Þá sagði hann að 24 menn grunaðir um aðild að tilrauninni hefðu verið drepnir.
Fetullah Gulen var um árabil náinn bandamaður Erdogans. Hann ákvað hins vegar að setjast að í Bandaríkjunum og fyrir þremur árum hóf ríkisstjórn AK-flokksins, flokks Erdogans, að berjast gegn honum. Var upphaflega látið til skarar skríða innan lögreglunnar.
Ríkisstjórnin vissi hvar ætti að leita að stuðningsmönnum Gulens að hluta til vegna þess að hún hafði aðstoðað þá við að fá störf á meðan Erdogan og Gulen voru enn bandamenn. Var þúsundum lögreglumanna ýtt til hliðar í störf þar sem þeir gátu ekki skaðað ríkisstjórnina. Nú eru þeir ekki lengur færðir til í starfi heldur leystir frá störfum.
Gulen neitar harðlega allri aðild að valdaránstilrauninni. John Kerry segir að tyrkneska ríkisstjórnin verði að leggja fram rökstudda beiðni við rétt bandarísk yfirvöld vilji hún fá Gulen framseldan.
Á annað hundrað hershöfðingjar og aðmírálar hafa verið handteknir víðs vegar um landið.
Átta tyrkneskum herforingjum tókst að flýja með þyrlu til Grikklands. Þeir hafa komið fyrir dómara í landamæraborginni Alexandropouli sakaðir um ólöglega komu til landsins. Málið verður tekið fyrir að nýju fimmtudaginn 21. júlí. Tyrknesk yfirvöld krefjast framsals mannanna en þeir hafa sótt um hæli í Grikklandi.