Home / Fréttir / Fjöldafundur evrópskra þjóðernissinna í Mílanó

Fjöldafundur evrópskra þjóðernissinna í Mílanó

Frá fundinum í Mílanó
Frá fundinum í Mílanó

Evrópskir flokkar þjóðernissinna efndu til stórfundar í Milanó laugardaginn 18. maí þar sem þeir sameinuðust um stefnu sem þeir segja að muni umbreyta ESB eftir ESB-þingkosningarnar.

Í fremstu röð flokksleiðtoganna voru Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, og Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðhreyfingarinnar (RN), í Frakklandi. Þau vilja að samtök flokka sinna, Evrópa þjóða og frelsis (ENF), myndi þriðja stærsta þingflokk ESB að kosningunum loknum.

„Það eru engir öfgamenn, kynþáttahatarar eða fasistar hér á þessu torgi,“ sagði Salvini. „Hér finnið þið ekki hægri öfgamenn heldur skynsemi í stjórnmálum. Öfgamennirnir hafa stjórnað Evrópu undanfarin 20 ár.“

Það rigndi á torginu í miðborg Mílanó þegar þúsundir stuðningsmanna Salvinis fylltu það með fánum sínum. Þeir hlýddu á leiðtoga 11 evrópskra flokka flytja boðskap sinn og þétta raðir sínar fyrir lokaátökin um þingsætin.

„Þetta er söguleg stund,“ sagði Marine Le Pen, „við höfnum þessum innflytjendum sem hafa kaffært þjóðum okkar, stofnað landsmönnum okkar í hættu.“  Þessi málflutningur flokkanna hefur hljómgrunn hjá mörgum kjósendum.

Hundruð manna tóku sér stöðu til hliðar við torgið og gerðu hróp að fundarmönnum. Þegar Salvini tók til máls gullu við hrópin: „Fastista frá Mílanó!“

Meðal flokka í ENF má nefna Frelsisflokk Austurríkis, Flæmingjaflokk Belgíu, Frelsisflokk Hollands, Geert Widlers flokksleiðtogi var í Mílanó.

Þótt flokkarnir sameinist um stefnu gegn innflytjendum og ESB hafa þeir ólík viðhorf til ýmissa lykilmála eins og fjármálastjórnar, dreifingar farandfólks og tengslanna við ráðamenn í Moskvu.

Athygli vakti að Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands og leiðtogi Fidesz-flokksins, tók ekki þátt í fundinum. Hann styður Salvini opinberlega og lofar „samvinnu“ að kosningum loknum en hann vill ekki eiga neitt bandalag við Le Pen.

Þá var ekki heldur þarna neinn frá stjórnarflokki Póllands (Flokki lagar og réttar). Fulltrúar smáflokka í Búlgaríu (Volya) og Slóvakíu (Sme Rodina) voru hins vegar meðal fundarmanna.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …