Home / Fréttir / Fjögurra NATO-ríkja flotaæfingar á Barentshafi

Fjögurra NATO-ríkja flotaæfingar á Barentshafi

Myndin er tekin 5. september 2020 á Noregshafi þegar bandaríski tundurspillirinn USS Ross tekur eldsneyti á hafi úti úr breska aðstoðarskipinu RFA Tidespring. Í bakgrunni er breska freigátan HMS Sutherland.
Myndin er tekin 5. september 2020 á Noregshafi þegar bandaríski tundurspillirinn USS Ross tekur eldsneyti á hafi úti úr breska aðstoðarskipinu RFA Tidespring. Í bakgrunni er breska freigátan HMS Sutherland.

Skip úr breska herflotanum stjórna um þessar mundir fjölþjóðlegum aðgerðum fyrir norðan Noreg. Freigatan KNM Thor Heyerdahl frá Noregi, freigátan HMS Sutherland og aðstoðarskipið RFA Tidespring frá Bretlandi auk tundurspillisins USS Ross frá Bandaríkjunum taka þátt í æfingunni.

Skipin hittust fyrir utan Lófóten í Noregi og héldu þaðan í áttina að Barentshafi.

„Við viljum að bandamenn okkar þjálfi sig meira og æfi í Noregi og næsta nágrenni okkar. Þetta kemur ekki í stað okkar eigin varna heldur er liður í heildaraðgerðum til varnar Noregi,“ segir Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs. „Það er mikilvægt að bandamenn okkar kynnist aðstæðum næst landi okkar með reglulegum æfingum með liðsafla okkar.“

Í byrjun maí 2020 sigldu bandarísk og bresk herskip inn á Barentshaf til æfinga í fyrsta sinn síðan um miðjan níunda áratuginn. Norðmenn ákváðu að taka ekki þátt í æfingunni þá.

Julie Wilhelmsen, sérfræðingur við Norsku utanríkismálastofnunina (NUPI) segir við norsku vefsíðuna High North News að Norðmenn vilji sýna hernaðarlega getu sína á norðurslóðum.

„Margir vöktu máls á því að Norðmenn tóku ekki þátt í bandarísk-bresku æfingunni í maí. Og nú hafa þeir [norski herinn] ákveðið að miklu skipti að Norðmenn taki þátt í æfingum nálægt Noregi. Með þátttöku í þessari æfingu senda Norðmenn skilaboð. Það dregur á sinn hátt athygli frá því að þetta snúist allt um stórveldakeppni milli Bandaríkjamanna og Rússa. Þetta snýst einnig um getu Norðmanna til sjálfsvarnar.

Það eru að gerast stórbreytingar á þessu svæði. Rússar hafa miklu meira frumkvæði í æfingum sínum og beitingu herafla á svæðinu. NATO hefur einnig aukið viðveru sína á norðurslóðum. Þetta hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum fimm árum.

Það er mikilvægt fyrir Norðmenn að sýna að þeir séu ekki aðeins framlenging á Bandaríkjamönnum eins og Rússar fullyrða oft. Þetta snýst í raun einnig um að verja nágrenni Noregs,“ segir hún.

Norski herinn hefur æft hvað eftir annað með bandamönnum sínum undanfarið. Miðvikudaginn 2. september æfði til dæmis bandarísk eldsneytisvél með bandarískum sprengivélum ásamt norskum sjó-, flug- og landher.

Í tilkynningu breska flotans um æfingarnar sem fara nú fram segir að til þeirra sé efnt til að tryggja frið á svæðinu og Bandaríkjamenn, Bretar, Danir og Norðmenn vinni saman að því að efla getu sína til að takast á við verkefni á norðurslóðum en það sé lykilatriði fyrir Breta að viðnámsþróttur á þessu svæði sé sem mestur.

Í tilkynningu sjötta flota Bandaríkjanna er lögð áhersla á mikilvægi þess að sýna ávallt árvekni á mikilvægum sjóleiðum á norðurslóðum.

Danir senda orrustuþotur til þátttöku í æfingunni að þessu sinni.

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …