Home / Fréttir / Fjarstýrðir flotar á næsta leiti

Fjarstýrðir flotar á næsta leiti

Flugmóðurskip af Gerall R. Ford-gerð
Flugmóðurskip af Gerald R. Ford-gerð

Frá því í síðari heimsstyrjöldinni hefur bandaríski flotinn verið ráðandi á heimshöfunum.  Hann hefur viðhaldið þessari stöðu með afar öflugum og fullkomnum skipum.  Óhætt er að segja að mikilvægustu skip flotans séu flugmóðurskipin.  Núverandi flugmóðurskipafloti Bandaríkjamanna er af Nimitz gerð.  Skipin voru tekin í notkun á árunum 1975 – 2009 en í flotanum eru tíu skip.  Áætlaður líftími þeirra er um hálf öld þannig að brátt verður fyrstu skipunum lagt.  Svonefnd Gerald R. Ford-gerð skipa mun taka við af Nimitz flugmóðurskipunum.  Fyrsta skipið hefur þegar verið tekið í notkun en von er á níu til viðbótar á næstu árum.

Veikleikar

Flugmóðurskip sigla aldrei ein um höfin.  Með þeim er fjöldi annarra skipa og jafnvel kafbáta.  Þessar flotadeildir eru því afar öflugar.  Flugmóðurskip eru hins vegar ekki ósökkvandi.  Óstaðfestar fréttir eru um að sænskur kafbátur hafi „sökkt“ flugmóðurskipi á æfingu árið 2005.  Fleiri hættur steðja að þeim.  Kínverski flotinn hefur til dæmis styrkt varnir sínar gegn flotadeildum Bandaríkjamanna á vestanverðu Kyrrahafi.  Rússar hafa einnig gert það að undanförnu í kringum heimahafnir sínar.

Það þarf því ekki að koma á óvart að bandarískir herfræðingar íhugi hvernig best sé að viðhalda yfirburðum Bandaríkjaflota á úthöfunum.  Fjallað er um hugmyndir þeirra í nýlegum greinum á vefsíðunni Defense News.  Í fyrstu var hugmyndin að bæta fleiri stórum og öflugum skipum við flotann. Nú leggja sérfræðíngarnir hins vegar meiri áherslu á minni skip með vísan til herfræðilegrar kenningar sem á ensku heitir Distributed Maritime Strategy (DMS) – dreifðar varnir á sjó.  Minnst var á hvað fælist í DMS í grein á vefsugerc33.sg-host.com 20. janúar sl.  Hugmyndin er að dreifa árásar- og eftirlitsskipum um vítt hafsvæði og þannig rugla andstæðinga í ríminu.

Nýir tímar

Ný vopn skipta miklu við útfærslu nýju flotastefnunnar.  Drónar gegna þar lykilhlutverki.  Eitt sinn mátti aðeins finna fjarstýrð herskip í vísindaskáldsögum. þeirra tími rennur nú greinilega upp í sjóvörnum.  Í Defense News er talað um að þau nái fótfestu á næsta áratug.  Bandaríkjafloti ræður nú þegar yfir fleyi sem á ensku kallast Sea Hunter og má útleggja sem veiðimaður á sjó.  Um er að ræða mannlausan eftirlitsbát sem búa má ýmsum vopnum.  Flotinn fékk hann árið 2018 og nú eru gerðar tilraunir með hann á hafi úti.

Veiðimaðurinn verður aðeins fyrsta mannlausa skipið af mörgum í bandaríska flotanum.  Flotastjórnin biður um tvö önnur skip í fjárlagafrumvarpi ársins og fyrir stuttu samþykkti þingið beiðnina.  Samkvæmt Defense News áætlar flotinn að kaupa átta önnur ómönnuð för á næstu fimm árum.  Margt er enn óljóst varðandi notkun nýju skipanna í flotum framtíðarinnar, það verður þó ekki aftur snúið og eftir nokkur ár verða bandaríski flotinn og flotar annarra gjörbreyttir.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …