Home / Fréttir / Fjarar undan Trump meðal forystumanna repúblikana

Fjarar undan Trump meðal forystumanna repúblikana

Chris Wallace ræðir við Donald Trump á Fox-sjónvarpsstöðinni 19. júlí 2020.
Chris Wallace ræðir við Donald Trump á Fox-sjónvarpsstöðinni 19. júlí 2020.

Vandræði magnast innan flokks repúblikana í Bandaríkjunum, flokks Donalds Trumps forseta, vegna þess að forsetinn skorast undan því að taka af skarið hvað stefnu skuli fylgt í baráttunni gegn COVID-19-faraldrinum. Margir forystumenn flokksins hafa sannfærst um að forsetinn ætli í raun ekkert að leggja af mörkum í þessu efni og hafa þeir því ákveðið að sniðganga forsetann og hafa yfirlýsingar hans að engu eða mótmæla þeim.

Í þessari neikvæðu afstöðu til Trumps felst meðal annars að menn ákveða að ganga með grímu fyrir vitunum á opinberum vettvangi og fara að þeim ráðum sem dr. Anthony S. Fauci, sérfræðingur í sóttvörnum, gefur en forsetinn og hörðustu stuðningsmenn hans í æðstu stöðum stjórnkerfisins gefa lítið fyrir ráð dr. Faucis og fara ekki leynt með þá skoðun sína.

Til marks um þetta má nefnda ríkisstjórar úr röðum repúblikana gefa nú fyrirmæli um grímur og starfsemi fyrirtækja í andstöðu við sjónarmið forsetans sem fær nú mun minni stuðning í skoðanakönnunum en Joe Biden, keppinautur hans um forsetaembættið úr röðum demókrata.

Hópur repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings hefur þrýst á ráðherra og forsetaembættið með kröfu um að aftur verði tekið til við að hafa opna fundi um aðgerðir gegn COVID-19 þar sem dr. Fauci og fleiri skýri almenningi reglulega frá stöðu mála. Til þessara funda var boðað reglulega þar til Trump ýtti þeim til hliðar með eintali sínu fyrir framan fjölmiðlamenn. Til þess er tekið í bandarískum fjölmiðlum að í fyrri viku var Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, í heimaríki sínu, Kentucky, og mælti gegn næstum öllu sem Trump hefur sagt varðandi veiruna og baráttuna gegn henni.

McConnell lagði áherslu á nauðsyn þess að bera grímu, hann lýsti „fullu“ trausti í garð dr. Faucis og hvatti Bandaríkjamenn að fara að reglum sóttvarnayfirvalda en Trump gerir ekkert með reglurnar eða hafnar þeim.

Donald Trump hefur hvað eftir annað spáð því eða fullyrt að faraldurinn sé á undanhaldi í Bandaríkjunum, tölfræði um að fleiri veikist megi rekja til betri sýnatöku og mælinga en annars staðar.

Í viðtali við Chris Wallace á Fox-sjónvarpsstöðinni sunnduaginn 19. júlí reiddist Trump og sagði Wallace fara með rangt mál þegar hann fullyrti að dánartíðni í Bandaríkjunum væri ein sú hæsta í heimi. Þóttist Trump geta sannað hið gagnstæða með því að kalla í aðstoðarmann sem lét hann hafa blað með einhverjum tölum. Atvikið má sjá á netmiðlum um heim allan og verður enn til þess að minnka traust í garð forsetans og afstöðu hans til COVID-19.

Í viðtalinu sagði forsetinn að hann mundi ekki gefa út fyrirmæli un grímur á almannafæri af því að Bandaríkjamenn ættu rétt á „ákveðnu frelsi“.

Judd Deere, upplýsingafulltrúi í forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu í Washington, hafnaði sunnudaginn 19. júlí allri gagnrýni á Trump og sagði:

„Allt sem sagt er í þá veru að forsetinn vinni ekki myrkranna á milli að því að gæta heilsu og öryggis allra Bandaríkjamanna, leiða allt stjórnkerfið gegn faraldrinum, þar á meðal flýta gerð bóluefnis og endurreisa efnahag okkar er alrangt.“

Fréttir berast um að hópur ríkisstjóra úr röðum repúblikana efni reglulega til símafunda, venjulega að næturlagi og án þess að starfslið þeirra sé nálægt. Þeir skiptist á skoðunum og upplýsingum um bestu úrræði í baráttunni við veiruna auk þess að fara orðum um ruglingslega leiðsögn Trumps.

Sjónvarpsstöðin ABC birti föstudaginn 17. júlí niðurstöður könnunar sem sýndi að meirihluti aðspurðra var mjög ósáttur við aðgerðir Trumps vegna faraldursins og tveir þriðju sögðu að þeir bæru lítið eða ekkert traust til þess sem Trump segði um sjúkdóminn.

Ýmsir nánustu samstarfsmenn Trumps segja að besta leið forsetans til að treysta stöðu sína sé að gera lítið úr hættunni af COVID-19. Mark Meadows, liðsstjóri forsetans, er eindregið þeirrar skoðunar að forsetaskrifstofan eigi að forðast að draga athygli að faraldrinum.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …