Home / Fréttir / Fjarar undan Theresu May – íhaldsráðherrar árétta samstöðu sína um ESB-úrsögn

Fjarar undan Theresu May – íhaldsráðherrar árétta samstöðu sína um ESB-úrsögn

May-hjónin á skemmtigöngu í sumarleyfi á Ítalíu.
May-hjónin á skemmtigöngu í sumarleyfi á Ítalíu.

Breska blaðið The Independent segir mánudaginn 14. ágúst að könnun sem gerð var sérstaklega fyrir það sýni að Theresa May, forsætisráðherra Breta, eigi að búa sig undir að yfirgefa embætti sitt eftir að hún snýr til baka úr sumarleyfi og tekur að berjast fyrir pólitísku lífi sínu.

Í könnuninni kemur fram að tæplega helmingur kjósenda telji að May eigi að segja af sér sem forsætisráðherra fyrir lok kjörtímabilsins árið 2022. Aðeins 29% vilja að hún haldi áfram út allt kjörtímabilið en 48% vilja að hún segi af sér áður en kjörtímabilinu lýkur.

Alls eru 58% óánægð með forystu hennar en 42% ánægðir, hún fær þarna -16 í einkunn miðað við +12 þegar hún rauf þing og boðaði til kosninga í júní.

Sé spurt um áhuga á að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra fær hann 33%, einu stigi meira en May sem fær 32%.

Breski forsætisráðherrann snýr nú að nýju til starfa eftir þriggja vikna sumarleyfi á Ítalíu og í Sviss þar sem hún stundaði gönguferðir með eiginmanni sínum.

Í  The Independent segir að í fjarveru May hafi ráðherrum í stjórn hennar reynst næsta erfitt að halda sig við línuna sem hún hefur boðað frá því að íhaldsmenn misstu meirihluta á þingi í kosningunum í júní – línan er „ekkert hefur breyst“ frá því að May boðaði „harða úrsögn“ úr ESB í ræðu í janúar 2017.

Bendir blaðið á að Philip Hammond fjármálaráðherra og  Amber Rudd innanríkisráðherra hafi sagt að finna megi „blandaða leið“ út úr ESB við litla hrifningu harðlínumanna í ríkisstjórninni. Einn þeirra er Liam Fox alþjóðaviðskiptaráðherra sem í sáttaskyni innan ríkisstjórnarinnar birti grein sunnudaginn 13. ágúst í The Sunday Telegraph með Philip Hammond og sagði að hann gæti sætt sig við umþóttunartíma vegna úrsagnarinnar úr ESB ef hann gæti frá upphafsdegi hans gert og skrifað undir fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, að Bretar yrðu utan ESB eins og hvert annað þriðja ríki.

Í greininni leggja Hammond og Fox áherslu á að um takmarkaðan tíma verði að ræða, hann geti ekki „verið ótakmarkaður; hann geti ekki myndað bakdyr til að standa innan ESB“. Þeir segja einnig að á umþóttunartímanum „verður að vera áfram greið leið um landamæri okkar; vörur keyptar á netinu má áfram flytja yfir landamæri; fyrirtæki verða áfram að geta komið varningi til viðskiptavina sinna alls staðar í ESB og framtakssöm, leiðandi fyrirtæki okkar í heiminum verða að geta ráðið til sín nauðsynlegt starfsfólk þar á meðal frá ESB-löndum“.

Könnun í The Independent sýnir að Íhaldsflokkurinn nýtur meira fylgis (42%) en Verkamannaflokkurinn (39%).

Sé spurt um hugsanlegan eftirmann May í leiðtogasæti Íhaldsflokksins nefna 16% Boris Johnson utanríkisráðherra, Philip Hammond og David Davis, úrsagnarráðherra, fá aðeins 5% hvor.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …