Home / Fréttir / Fiskveiðideila Breta og Frakka harðnar

Fiskveiðideila Breta og Frakka harðnar

Boris Johnson og Emmanuel Macron.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hittust sunnudaginn 31. október á einkafundi til hliðar við leiðtogafund G20-ríkjanna í Rómarborg. Tilgangur fundarins var að finna lausn á deilu milli Breta og Frakka um fiskveiðar á Ermarsundi. Fréttaskýrendur segja að bilið milli stjórnvalda landanna vegna málsins hafi breikkað eftir fundinn.

Deilan á rót í ágreiningi um fiskveiðiheimildir eftir að Bretar sögðu skilið við Evrópusambandið (ESB). Frakkar telja að Bretar svíki fyrirheit um veiðileyfi til franskra sjómanna og hafa frönsk yfirvöld gripið til ýmissa gagnaðgerða til að knýja Breta til að breyta um stefnu.

Eftir að Macron og Johnson höfðu ræðst við í 30 mínútur gaf franskur embættismaður til kynna að samkomulag hefði tekist milli þeirra um að eins fljótt og kostur væri yrði gripið til aðgerða til að minnka spennuna í deilunni. Bretar sögðu að ekkert samkomulag í þá veru lægi fyrir, það væri alfarið á hendi Frakka að stilla til friðar.

Í opinberri breskri yfirlýsingu sagði að á fundinum hefði Johnson „áréttað djúpar áhyggjur sínar“ vegna málflutnings Frakka og „lýst þeirri von að Frakkar drægju saman seglin“.

Talsmaður Breta sagði að þeir hefðu hvorki með málflutningi sínum né gerðum reynt að stigmagna deiluna, það væri á valdi Frakka að minnka spennuna.

Fjárhagslega er ekki mikið í húfi vegna fiskveiðanna sem um er deilt en táknrænt og tilfinningalega er um stórmál að ræða hjá báðum þjóðum.

Frakkar segjast ekki lengur hafa leyfi til að veiða á hefðbundnum miðum sínum Bretar segja að þeir hafi afgreidd umsóknir ESB-þjóða um veiðileyfi 98% á jákvæðan hátt. Nú sé deilt vegna nokkurra tuga franskra smáskipa vegna þess að Frakkar hafi ekki skilað umbeðnum skjölum á fullnægjandi hátt.

Clement Beaune, Evrópumálaráðherra Frakka, sakaði sunnudaginn 31. október Breta um að „beina spjótum“ að Frökkum „af pólitískum ástæðum“ og Bretar hefðu brotið gegn ESB-úrsagnarsamkomulagi sem báðir aðilar samþykktu á sínum tíma.

„Sé litið á ESB sem heild hafa um 90% umsókna um veiðileyfi verið samþykktar, þær sem eftir standa eru allar frá Frökkum,“ sagði Beaune.

Frakkar hóta Bretum að loka frönskum höfnum fyrir breskum fiskiskipum og herða eftirlit með ferðum skipa og flutningabíla verði umsóknirnar ekki afgreiddar fyrir þriðjudag 2. nóvember

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …