Home / Fréttir / Finnskt skipafélag krefst vegabréfsáritunar af ferjufarþegum frá Þýskalandi

Finnskt skipafélag krefst vegabréfsáritunar af ferjufarþegum frá Þýskalandi

Ferja frá Finnlines
Ferja frá Finnlines

Í Hufvudstadsbladet í Finnlandi segir frá því laugardaginn 2. janúar að útgerð Finnlines-skipafélagsins hafi ákveðið að krefjast framvísunar skilríkja af þeim sem fara um borð í skip félagsins í Travermünde í Þýskalandi. Enginn fái að stíga um borð án þess að sýna vegabréf, persónuskilríki með mynd, vegabréfsáritun, búsetuheimild eða annað sambærilegt skjal.

Í frétt blaðsins segir að þetta sé gert til að hafa hemil á komu hælisleitenda án viðeigandi skilríkja til Finnlands. Ferjan frá Travermünde siglir til Helsinki. Hún er í ferðum mill borganna sex daga vikunnar.

Finnlines tilkynnti á vefsíðu sinni 23. desember 2015 að finnsk yfirvöld hefðu bréflega óskað eftir að þetta eftirlit með farþegum hæfist, „auk vegabréfs eða persónuskilríkis með mynd verði einnig krafist annarra skjala sem nauðsynleg eru til að tryggja ferðafrelsi til Finnlands, s.s. vegarbréfsáritunar, búsetuleyfis eða sambærilegra skjala.“

Félagið tilkynnti að það mundi þegar í stað verða við þessum óskum og bætti við: „Finnlines mun ekki flytja um borð í skipum sínum neinn sem hefur ekki öll skjöl sem eru nauðsynleg til að komast inn í landið.“

Päivi Nerg, skrifstofustjóri finnska innanríkisráðuneytisins, sagði við Hufvudstadsbladet: „Við höfum rætt við Finnlines og skipafélagið hefur hert kröfur sínar.“

Fyrir jól voru um 25 hælisleitendur með hverri ferju sem kom til Finnlands frá Travermünde.

Þýsku sjálfboðaliðasamtökin Lübecker Flüchtlingsforum hafa brugðist illa við ákvörðun finnska skipafélagsins og yfirvalda í Finnlandi. Samtökin hafa frá því í september 2015 aðstoðað flóttamenn við að komast til Norðurlanda frá Norður-Þýskalandi.

Á Facebook-síðu samtakanna segir að krafan um vegabréfsáritun af flóttamönnum um borð í ferjunni í Travermünde hafi almennt áhrif á alla sem höfðu í huga að taka ferjuna til Finnlands. Tilkynningin hafi komið öllum í opna skjöldu og valdið sumum áfalli þar sem fólk frá Írak og Sýrlandi séu nú strandaglópar og komist ekki til ættingja og vina í Finnlandi.

Päivi Nerg vill ekki segja neitt um þá fullyrðingu að krafan um vegabréfsáritun muni girða fyrir ferðir flóttamanna til Finnlands frá Travermünde. Hann segir:

„Það er erfitt að segja hvað kann að gerast. Meira en 800.000 flóttamenn hafa komið til Þýskalands. Hælisleitendur geta ekki fengið vegabréfsáritun beint til Finnlands í Þýskalandi en verið getur að sumum takist að afla sér Schengen-áritunar og þá geta þeir ferðast til Finnlands.“

Þá segir hann einnig óljóst hvort þeim sem vilja komast til Finnlands takist að finna sér aðrar leiðir þangað, til dæmis um Eystrasaltsríkin.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …