Home / Fréttir / Finnskir þingflokkar hlynntir NATO aðild

Finnskir þingflokkar hlynntir NATO aðild

Úr sal finnska þingsins.

Stærstu þingflokkar Finnlands lýstu miðvikudaginn 20. apríl stuðningi við aðild að einhvers konar hernaðarbandalagi til að breðast við innrás Rússa í Úkraínu. Þingumræður hófust þá um hvort skynsamlegt væri fyrir Finna að ganga ío NATO en þeir eiga löng landamæri sameiginleg með Rússum.

Talsmenn Jafnaðarmannaflokksins, flokks Sönnu Marin forsætisráðherra, tóku ekki af skarið um NATO-aðild í ræðum sínum en lýstu samt stuðningi við þá hugmynd að tengjast hernaðarbandalagi.

„Það er augljóst að aðgerðir Rússa hafa fært Finna nokkur skref nær því að telja aðild að hernaðarsamstarfi nauðsynlegt,“ sagði Antti Lindtman, þingflokksformaður jafnaðarmanna.

Miðflokkurinn, stærst samstarfsflokkur jafnaðarmanna í fimm flokka ríkisstjórn Finnlands, sagðist reiðubúinn að styðja NATO-aðild.

„Þingflokkur Miðflokksins er reiðubúinn til að taka allar ákvarðanir í þágu öryggis Finnlands, þar á meðal að sækja um aðild að NATO,“ sagði Juha Pylvas þingflokksformaður.

Átta þingflokksformenn af 10 studdu annaðhvort aðild að NATO eða þátttöku í hernaðarsamstarfi.

Ville Tavio, þingflokksformaður Finnaflokksins, sem er í stjórnarandstöðu sagði unnt að „réttlæta“ NATO-aðild. Atte Harjanne frá stjórnarflokknum Græningjum sagði: „Þingflokkur Græningja styður aðild Finnlands að NATO“.

Leiðtogi Vinstra bandalagsins, Jussi Saramo, sagði að þessa ákvörðun ætti ekki að taka „með stimpli“ heldur yrði að ræða hana opið.

Vinstra bandalagið er með 16 þingmenn í 200 manna þingi Finnlands. Flokkurinn á aðild að stjórn Sönnu Marin. Hann hefur jafnan verið andvígur NATO en segist ekki ætla að hverfa úr ríkisstjórninni samþykki meirihluti þingsins aðild að bandalaginu.

Saramo sagði að aðildarumsókn að NATO mundi auka spennu á landamærum Finnlands og Rússlands og kynni að valda því að Finnland yrði fyrsta skotmark í stríði milli NATO og Rússlands.

Eini þingmaðurinn sem lýsti beinni andstöðu við hugsanlega aðildarumsókn Finna að NATO var þjóðernissinni sem situr einn í þingflokki sínum.

Mat blaðsins Helsingin Sanomat á þingumræðunum er skýrt:

„Ferlið sem krafist er í þingræðislegu lýðveldi er nú hafið, það breytir þó ekki stóru myndinni: Finnland sækir um aðild að NATO eins fljótt og kostur er.“

 

Heimild: Reuters og YLE.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …