Home / Fréttir / Finnskir ritstjórar rísa til varnar blaðamönnum sem sæta hatursárásum

Finnskir ritstjórar rísa til varnar blaðamönnum sem sæta hatursárásum

e75cad08-f555-48e4-81fc-22519bfb2f9b
Jessikka Aro blaðakona

 

Forystumenn finnskra fjölmiðla hafa sent frá sér yfirlýsingu til stuðnings „trúverðugum fjölmiðlum“. Alls 21 ritstjóri stærstu fjölmiðlafyrirtækja Finnlands lýsa andstöðu sinni við það sem þeir kalla „gervi-miðla“. Slíkir miðlar hafa látið að sér kveða í vaxandi mæli undanfarna mánuði með misvísandi og hatursfullu efni. Af hálfu þessara miðla hefur einnig verið stofnað til herferða gegn einstökum blaðamönnum.

Hér er ekki aðeins um gervi-miðla í Finnlandi að ræða því að undir rós beina finnsku ritstjórarnir einnig spjóti sínu að áróðursstarfsemi Rússa gagnvart finnskum blaðamönnum. Vegna nágrennis við Finnland er stærsta staðar-vefsíðan í St. Pétursborg í Rússlandi, Fontanka.ru, með sérstakan dálk helgaðan fréttum frá Finnlandi. Þar er mikið fjallað um athugun finnskra yfirvalda á því hvort höfða eigi sakamál á hendur Johan Bäckman, frægum málsvara Kremlverja, og rússneskum samstarfsmönnum. Oft er vitnað til Bäckmans sem sérfræðings í alþjóðamálum í málgögnum rússneskra stjórnvalda.

Málið sem er til rannsóknar hjá finnsku lögreglunni snertir kæru vegna meiðyrða og ofsókna í garð finnsku blaðakonunnar Jessikku Aro. Vegna frétta hennar um athafnasemi net-trölla á snærum Kremlverja hefur hún verið tilnefnd til hinna virtu Bonnier-blaðamannaverðlauna. Samhliða tilnefningunni hefur hún mátt sæta skipulögðum árásum af hálfu Bäckmans og liðsmanna hans – fyrir utan allar ávirðingarnar frá net-tröllunum sem hafa verið rannsóknarefni hennar. Nýjasti uppspuninn snýst um að Aro eigi að baki feril sem eiturlyfjasali.

Í frétt finnska ríkisútvarpsins YLE um yfirýsingu ritstjóranna segir að ýmsar haturfullar vefsíður hafi dregið að sér fjölda lesenda með frásögnum sem oft beinast gegn minnihlutahópum og innflytjendum.

Frásagnirnar séu oft misvísandi og ónákvæmar en ritstjórar eða höfundar efnis á vefsíðunum þurfi ekki að lúta eftirliti Fjölmiðlaráðs Finnlands sem gætir þess að grunnreglur blaðamennsku séu virtar. Skapi þetta skörp skil milli þeirra og almennra fjölmiðla í landinu. Ilja Janitskin í Barcelóna á Spáni heldur úti stærstu vefsíðunnu, MV-Lehti.

„Hver maður hefur rétt á að hafa skoðun,“ segir Kaius Nemi, ritstjóri Helsingin Sanomat. „Þær geta verið mjög ólíkar en það er ekki unnt að teygja og toga staðreyndir. Á gervi-vefsíðum eru í boði upplýsingar sem hafa verið meðhöndlaðar í því skyni að afvegaleiða.“

YLE segir að það sé i raun einstakt að ritstjórar svo margra fjölmiðla taki höndum saman á þennan hátt en aðstæður hafi knúið þá til að stíga þetta skref.

Í yfirlýsingunni segja ritstjórarnir að þeir muni ekki líða neinum að beita blaðamenn sína þrýstingi eða rógi.

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …