Home / Fréttir / Finnskir landamæraverðir brjóta upp smyglhring á fólki – streymi aðkomufólks tífaldast

Finnskir landamæraverðir brjóta upp smyglhring á fólki – streymi aðkomufólks tífaldast

Juha Sipilä, forsætisráðherra Finna.
Juha Sipilä, forsætisráðherra Finna.

Finnskir landamæraverðir segja að þeir hafi brotið upp hring smyglara á fólki. Smyglararnir kröfðu hælisleitendur um allt að 10.000 evrum (1,5 m. kr.) fyrir að koma þeim frá Tyrklandi til Finnlands. Talið er að smyglurunum hafi tekist að lauma um hundrað manns til Finnland á einu ári. Frá þessu var skýrt í finnska útvarpinu, YLE, fimmtudaginn 15. október.

Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, sagði fyrir fund leiðtogaráðs ESB í Brussel fimmtudaginn 15. október að hann mundi beita sér fyrir að varsla á ytri landamærum Schengen-svæðisins yrði efld. Þá vildi hann einnig að með hraði yrði unnið að því að opna sérstakar Schengen-landamærastöðvar (hotspots) til að skrá aðkomufólk til Grikklands og Ítalíu.

Forsætisráðherrann taldi ólíklegt að ESB-leiðtogarnir kæmu sér saman um lista yfir „örugg lönd“, fólk frá þeim löndum öðlast ekki rétt til hælisvistar í Schengen-ríkjum. Helst er ágreiningur um hvort líta beri á Tyrkland sem öruggt land. Svíar telja til dæmis að svo sé ekki. Hið sama má segja um Þjóðverja.

Finnar vilja að Frontex, Landamærastofnun Evrópu, komi meira að gæslu ytri landamæra Schengen-svæðisins en nú er. Þar með yrði skipulegar unnið að því að skrá fólk sem er án persónuskilríkja og tryggja að það sé innan ramma hins opinbera innflytjendakerfis.

Lögfræðingar hælisleitenda í Finnlandi segja þá eiga fárra annarra kosta völ en leita á náðir smyglara. Herða þurfi á aðgerðum til að hafa hendur í hári þeirra.

Alls liggja 15 manns undir grun fyrir aðild að smyglhringnum, allir af íröskum uppruna en sumir með finnskan eða sænskan ríkisborgararétt. Fyrst tókst að rjúfa smyglhringinn við rannsókn máls í Helsinki-höfn vorið 2015 en síðan hefur málið undið upp á sig.

Líklegt er að árið 2015 verði hælisleitendur í Finnlandi milli 30.000 og 35.000 sem er tíföldun frá því í fyrra.

Lögregla segir fleiri mál af svipuðum toga til rannsóknar og hugsanlega verði upplýst um þau fyrir lok ársins, Lögfræðingar segja að starfsemi smyglaranna megi rekja til þess hve fáar lögmætar leiðir hælisleitendur geti farið. Lögfræðingarnir fagna aðgerðum lögreglunnar en segja jafnframt að huga þurfi að málinu í stærra samhengi.

Bent er á að Finnar geti ekki einir auðveldað fólki í neyð að komast inn í Evrópu. Til að minnka áhrif smyglaranna verði að skapa farand- og flóttafólki örugga og opna leið inn í Evrópu. Ákvörðun um það verði að taka á evrópskum eða alþjóðlegum vettvangi.

Finnska ríkisstjórnin ákvað að bregðast við flóttamannastraumnum frá Sýrlandi í ár með því að hækka kvóta fyrir flóttamenn í Finnlandi úr 750 í 1050. Hins vegar er stefnt að minnkun hans í 750 að nýju árið 2016 kröfu Finnaflokksins sem á aðild að ríkisstjórn landsins.

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …