Home / Fréttir / Finnski varnarmálaráðherrann segir Rússa dreyma um endurheimta stöðu risaveldisi

Finnski varnarmálaráðherrann segir Rússa dreyma um endurheimta stöðu risaveldisi

Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finna.
Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finna.

Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands, er ekki sammála þýska utanríkisráðherranum sem sagði nýlega að spennan milli austurs og vesturs sé að verða hættulegri en í kalda stríðinu. Niinistö sagði hins vegar í samtali við finnska ríkisútvarpið YLE laugardaginn 15. október að ýmsir þættir ágreiningsmála á alþjóðavettvangi um þessar mundir minntu á kalda stríðsárin.

Finnski varnarmálaráðherrann sagði að Frank Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, hefði vafalaust átt við að staðan núna væri á margan hátt óræð. Niinistö sagði: „Í kalda stríðinu var jafnvægi haldið með einhvers konar hræðilegu détente [spennuslökun] nú á tímum er ástandið sérstakt að því leyti að Rússar haga sér á þann hátt að enginn veit hvað þeir gera næst. Þeir gengu til dæmis fram af öllum með því að ráðast inn á Krímskaga og hafa síðan stundað blendingsstríð [hybrid warfare] í Austur-Úkraínu.“

Hann sagði þátttöku Rússa í borgarastríðinu í Sýrlandi lið í sömu viðleitni þeirra til að auka og sýna vald sitt.

„Rússar reyna að eigna sér skika á heimskortinu og endurheimta virðingu. Þeir halda að þeim takist að ávinna sér hana með því að skapa ótta. […] Með þátttöku sinni nú í stríðinu í Sýrlandi vilja Rússar sýna að þeir hafa sömu stöðu risaveldis og þeir höfðu óvéfengjanlega í kalda stríðinu. Ég geng ekki svo langt að segja að kalda stríðið hafi hafist að nýju en vissulega má sjá ský á himni sem líkjast sumu sem einkenndi átök kalda stríðsins,“ sagði varnarmálaráðherra Finnlands.

Niinistö sagði að hugsanlega kynni spenna að magnast enn frekar milli austurs og vesturs:

„Þegar litið er til orðræðunnar er ástæða til að hafa áhyggjur vegna þess til dæmis af hve miklu kæruleysi er talað um kjarnorkuvopn. Í kalda stríðinu gættu menn sín enn betur en nú þegar þeir skiptust á orðum um beitingu kjarnorkuvopna.“

Ráðherrann var spurður hvort hann teldi hættu á átökum milli Bandaríkjamanna og Rússa í Sýrlandi. Hann taldi að áhættan væri svo mikil kæmi til slíkra átaka að það héldi aftur af stórveldunum sjálfum en hins vegar kynnu átök milli staðgengla þeirra að leiða til beinna árekstra.

Ráðherrann var spurður um tvö nýleg atvik þar sem rússneskar orrustuþotur rufu finnska lofthelgi. Hann sagðist ekkert hafa heyrt um pólitíska hlið málsins eftir fund með rússneska sendiherranum í finnska utanríkisráðuneytinu. Viðbrögð finnska flughersins sýndu hins vegar að hann væri við öllu búinn.

Hann sagðist ekki sjá nein tengsl milli flugs rússnesku vélanna og þess að daginn eftir atvikin ætluðu Finnar og Bandaríkjamenn að skrifa undir samning um samstarf í varnarmálum. Undir samninginn var skrifað föstudaginn 7. október eins og ákveðið hafði verið.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …