Home / Fréttir / Finnski utanríkisráðherrann vill harðari útlendingastefnu að danskri fyrirmynd

Finnski utanríkisráðherrann vill harðari útlendingastefnu að danskri fyrirmynd

Timo Soini, utanríkisráðherra Finna.
Timo Soini, utanríkisráðherra Finna.

Danir hafa mótað hörðustu afstöðu Norðurlandaþjóða í útlendingamálum undanfarið segir í frétt finnska ríkisútvarpsins YLE mánudaginn 14. desember. Ríkisstjórnin hafi í síðustu viku lagt til að lögregla gæti gert lausafé hælisleitenda upptækt til að standa undir kostnaði við þá. Í ágúst hafi Danir ákveðið að lækka félagsleg útgjöld í þágu þeirra sem fá hæli um næstum helming.

Í YLE er vitnað í Timo Soini, utanríkisráðherra Finna, sem hafi sagt mánudaginn 14. desember sagt að Finnar ættu að fara að fordæmi Dana.

„Vissulega gætum við verulega skert félagslegar bætur. Það hefur verið gert í Danmörku og ég hef ekki orðið var við að með því hafi nokkrir samningar verið brotnir,“ sagði ráðherra við fréttamann YLE í Brussel.

Í fréttinni segir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hafi gagnrýnt Dani fyrir að lækka bætur til þeirra sem hafi fengið hæli, það brjóti gegn flóttamannasamningi SÞ.

YLE segir að norrænir utanríkisráðherrar hafi hist í Brussek mánudaginn 14. desember til hliðar við utanríkisráðherrafund ESB (þrjú af Norðurlöndunum fimm séu í ESB). Á fundinum hafi þeir skipst á upplýsingum um hvernig farið sé með hælisleitendur í einstökum löndum. Soini segi að nágrannaríkin reyni að forðast óheilbrigða samkeppni á þessu sviði.

Þetta megi túlka á þann veg að herði eitt ríki stefnu sína gagnvart hælisleitendum verði aðrir einnig að gera það. Í síðustu viku birti finnska ríkisstjórnin 80 punkta áætlun sína sem ætlað er að fella stefnu hennar að því sem birtist í nýrri, harðari stefnu Svía.

„Það er ljóst að til lengdar mun félagslegt líkan ESB og velferðarlíkan Norðurlandanna ekki standast áraunina óbreytta,“ sagði Soini.

Soini er formaður Finnaflokksins sem er gagnrýninn á ESB. Hann hefur krafist þess að önnur ESB-ríki taki á sig sömu ábyrgð og þau ríki sem tekið hafa á móti flestum hælisleitendum miðað við fólksfjölda: Svíþjóð, Þýskaland, Austurríki, Finnland og Holland.

„Eigi sú samstaða að ríkja innan ESB sem af er látið er óhugsandi að fá ríki verði látin bera ábyrgðina á þessu. Við erum tekin að nálgast þann punkt að okkur sé um megn að sinna þessu lengur,“ sagði finnski utanríkisráðherrann.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …