Home / Fréttir / Finnski utanríkisráðherrann: Eini tíminn til að ræða NATO-aðild

Finnski utanríkisráðherrann: Eini tíminn til að ræða NATO-aðild

Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna.

Græninginn Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, sagði laugardaginn 23. apríl að þröskuldurinn fyrir Finna til að komast inn í NATO kynni að hækka í framtíðinni ef þeir reyndu ekki að sækja um aðild núna. Hann sagði að stríðið í Úkraínu hefði neytt Finna til að endurmeta öryggisstefnu sína.

Ráðherrann tók þátt í umræðuþætti í finnska ríkissjónvarpinu og sagði að erfitt væri að ímynda sér dramatískari umskipti í evrópskum öryggismálum en nú hefðu orðið.

„Hvað verra gæti enn gerst til að Finnar íhuguðu að minnsta kosti ekki NATO?“ spurði ráðherrann.

Maria Ohisalo, leiðtogi Grænaflokksins, lýsti nýlega einnig yfir stuðningi við aðild að vestræna hernaðarbandalaginu.

Umræðurnar í Finnlandi hafa mjög snúist um hvers konar varnartrygginga Finnar njóti á umsóknarferlinu innan NATO. Finnar eru nú samstarfsþjóð NATO og njóta því ekki öryggistryggingarinnar í 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt bandalagsríki sé árás á þau öll.

Haavisto sagði í sjónvarpsþættinum að Finnar yrðu að treysta á eigin varnir á umsóknarferlinu.

Þingumræður um NATO-aðildina hófust í Finnlandi í vikunni. Þeim lýkur með ákvörðun um hvort Finnar sæki um aðild eða ekki. Athugun sem YLE gerði laugardaginn 23. apríl sýnir að af 200 þingmönnum styðja 114 aðild að NATO. Talið er að stuðningsmönnum meðal þingmanna fjölgi þegar jafnaðarmenn og miðflokksmenn kynna afstöðu sína.

Rússar hafa varað Finna og Svía við „afleiðingum“ þess að þeir gangi í NATO.

Haavisto sagði í YLE-þættinum að það yrði gott ef nágrannaþjóðirnar tvær stilltu saman strengi sína við töku ákvarðana um NATO-aðildina. Hann áréttaði hins vegar að sem „fullvalda þjóð“ tækju Finnar „einir ákvarðanir um eigið öryggi og varnir“.

Samtök foringja í finnska varaliðinu lýstu laugardaginn 23. apríl stuðningi við NATO-aðild Finnlands. Anna-Maja Henriksson, formaður Sænska þjóðarflokksins og dómsmálaráðherra, áréttaði mikilvægi NATO-aðildar í ræðu á flokksráðsfundi í Kokkola laugardaginn 23. apríl.

„Það á að vera svo fráhrindandi að gera hernaðarárás á land okkar að engum komi til hugar að gera hana,“ sagði Henriksson í ræðu sinni.

Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna.Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …