Home / Fréttir / Finnski herinn sendir 900.000 varaliðum bréf um verkefni á átakatímum

Finnski herinn sendir 900.000 varaliðum bréf um verkefni á átakatímum

 

 

Finnskir eftirlitsbátar leita að ókunnum kafbáti utan við Helsinki í apríl 2015.
Finnskir eftirlitsbátar leita að ókunnum kafbáti utan við Helsinki í apríl 2015.

Um þessar mundir hefur finnska varnarmálaráðuneytið lokið við að senda bréf til um 900.000 manna í varaliði hersins og gert þeim grein fyrir verkefni þeirra „komi til styrjaldar“, Segir í frétt breska blaðsins The Daily Telegraph (DT) föstudaginn 22. maí og segir blaðið að líta beri á þessa tilkynningu ráðuneytisins í ljósi vaxandi spennu í samskiptum við Rússa, nágrannaþjóðina.

DT minnir á að fyrir utan Úkraínu eigi ekkert Evrópuland lengri sameiginleg landamæri með Rússlandi en Finnland um 1.300 km löng. Finnum standi því ekki á sama hafi rússnesk stjórnvöld breytt um stefnu gagnvart nágrannaríkjum sínum, þeir séu ekki í NATO og eigi allt undir eigin styrk.

Í bréfinu er varaliðsmönnum sagt hjá hvaða herstjórn þeir eigi að skrá sig komi til átaka. „Meðfylgjandi er að finna sérákvæði varðandi þig sjálfan og upplýsingar um verkefni þitt komi til styrjaldar,“ segir í bréfinu.

Einn finnsku varaliðanna sem fékk bréfið sagði: „Tímasetningin er engin tilviljun. Hana má greinilega rekja til meiri árásarhugar meðal Rússa. Ég hef verið varaliði í 15 ár og hef aldrei áður fengið bréf af þessu tagi. Það er mjög sjaldgæft að slík bréf séu send.“

Um 16.000 hermenn eru í finnska hernum en með virkjun varaliða getur fjöldinn orðið 285.000.

Ríkisstjórnin neitar að bréfin eigi eitthvað skylt við ástandið í Úkraínu eða spennu í samskiptum við Rússa. Hún segir að aðdragandi þess að bréfin séu send núna sé tvö ár.

Mika Kalliomaa, talsmaður finnska hersins, segir að um sé að ræða lið í áætlun um að efla tengsl hersins við varaliðana en ekki viðbrögð við stöðu öryggismála á líðandi stundu. Það þurfi að tryggja að um rétt heimilisföng og skýrar boðleiðir sé að ræða.

Í DT er hins vegar vitnað í sérfræðinga sem segja að hvað sem líði aðdraganda frá því áður en Rússar innlimuðu Krímskaga hafi áhyggjur af áformum Rússa augljóslega ráðið útsendingu bréfsins.

Charly Salonius-Pasternak við Finnsku alþjóðamálastofnunina segir:

„Hefðu Rússar stefnt að frjálslyndri lýðræðisstjórn hefði ekkert þrýst á að gera þetta. Fyrir því eru hins vegar rök við núverandi aðstæður. Finnski herinn vill vera viss um að hann geti treyst á 230.000 varaliði sé nauðsynlegt að flauta til leiks.

Þetta má setja í samhengi við vaxandi óstöðugleika á svæðinu. Rússar hafa sýnt að þeir geta flutt mikinn liðsafla mjög langt á mjög skömmum tíma. Ég hef aldrei verið spurður jafnoft af almennum borgurum hvort þeir þurfi að hafa áhyggjur af stöðunni í öryggismálum.“

Sovétmenn réðust inn í Finnland árið 1939 og lögðu undir sig meira en 10% af landinu. Í kalda stríðinu voru Finnar hlutlausir með vináttusamning við Sovétmenn sem rann sitt skeið með hruni Sovétríkjanna.

Rússneskar herflugvélar hafa oft látið reyna á loftvarnir Finna undanfarna mánuði. Finnski flotinn kastaði djúpsprengjum í hafið skammt frá Helsinki í apríl vegna grunsemda um að þar væri ókunnur kafbátur á ferð.

Í DT er minnt á að Finnar hafi markvisst eflt varnarsamstarf sitt við Norðurlönd síðustu misseri en finnski flugherinn tók til dæmis þátt í herþjálfun hér á landi í febrúar 2014 með Norðmönnum og Svíum.

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …