Home / Fréttir / Finnski flugherinn æfir með bandarískri eldsneytisvél

Finnski flugherinn æfir með bandarískri eldsneytisvél

Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna, Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum NATO 24. janúar 2022.

Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, fóru til Brussel í liðinni viku og hittu Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Þau ræddu um stöðu öryggismála ekki aðeins vegna rússneska umsátursins um Úkraínu heldur einnig um alvarlega þróun öryggismála á Eystrasaltssvæðinu.

Finnar og Svíar áskilja sér rétt til að ganga í NATO án afskipta rússneskra stjórnvalda. NATO-aðild er þó ekki á stefnuskrá ríkisstjórna landanna en digurbarkalegar kröfur Vladimirs Pútins Rússlandsforseta um að hann hafi rétt til íhlutunar í sjálfsákvörðunarrétt nágrannaþjóða hafa fært Finna og Svía nær NATO eins og fundurinn með Stoltenberg sýndi.

Samhliða því sem Haavisto utanríkisráðherra heimsótti höfuðstöðvar NATO æfðu finnskir herflugmenn um borð í finnskum F/A-18 Hornet orrustuþotum að taka eldsneyti á lofti úr KC-135 Stratoyanker, eldsneytisvél bandaríska flughersins.

Æfingin fór fram dagana 24. til 27. janúar í lofti milli bæjanna Oulu, Rovaniemi, Kajaani og Kuusamo í norðurhluta Finnlands, segir í tilkynningu finnska flughersins.

Finnsku herþoturnar komu frá þremur flugherstöðvum Finna í Rovaniemi, Rissala og Pirkkala. Bandaríska KC-135 Stratotanker-vélin kom frá flugherstöðinni í Mildenhall í Bretlandi en vélin hafði tímabundið bækistöð í Rovaniemi.

Í desember tilkynnti finnska ríkisstjórnin að hún ætlaði að kaupa 64 nýjar F-35A orrustuþotur frá Bandaríkjunum í stað F/A-18 þotnanna.

Finnar taka þátt í NATO-heræfingunni Cold Response sem Norðmenn stjórna í Norður-Noregi í mars og byrjun apríl. Frá því á níunda áratugnum hefur NATO ekki efnt til svo mikillar heræfingar á norðurslóðum.

 

Heimild: Barents Observer.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …