Finnska utanríkisráðuneytið hefur hafið herferð á samfélagsmiðlum til að letja hugsanlega hælisleitendur frá því að koma til Finnlands. Boðskapnum er beint til ungra karla í Írak og Tyrklandi.
Sampo Terho, þingflokksformaður Finnaflokksins, segir við finnska ríkisútvarpið YLE að þunginn í skilaboðum ráðuneytisins á Facebook sé að sannfæra unga karla á átakasvæðum í Mið-Austurlöndum og Írak um að það sé hvorki áhættu né peninga virði að koma til Finnlands.
„Þessi raunsæju skilaboð um líkur á að fá hæli í Finnlandi þjóna bæði hagsmunum Finna og þeirra sem undirbúa ferð hingað. Ef það er í raun ljóst að þér verði brottvísað hvers vegna ættir þú þá eyða allt að 10.000 evrum í ferðina?“ spurði Terho.
Þingflokkur Finnaflokksins segir að notuð sé arabíska í herferðinni. Utanríkisráðuneytið sagði að morgni föstudags 23. október að allt að 80.000 sinnum hefði verið farið inn á Facebook síðuna.
Timo Soini, formaður Finnaflokksins, er utanríkisráðherra. Flokkurinn var sigurvegari þingkosninganna í apríl 2015. Ný skoðanakönnun bendir hins vegar til þess að flokkurinn sé „í frjálsu falli“ hjá kjósendum, innan við helmingur kjósenda hans segja nú að þeir myndu greiða flokknum atkvæði.
Fréttaskýrendur segja að fylgishrunið megi rekja til óánægju með störf og stefnu flokksins í ríkisstjórn. Fylgi helsta stjórnarandstöðuflokksins, Jafnaðarmannaflokksins, eykst mest við fylgistap Finnaflokksins.