Home / Fréttir / Finnska strandgæslan glímir við smyglara á fólki

Finnska strandgæslan glímir við smyglara á fólki

Ferjur eru notaðar til að smygla fólki til Finnlands.

Finnska strandgæslan hefur hafið rannsókn sjö mála á smygli á fólki yfir Finnska flóa frá Hvíta-Rússlandi segir í frétt finnska ríkisútvarpsins YLE fimmtudaginn 7. október en finnska blaðið Ilta-Sanomat birti fyrstu fréttina um málið.

Í sumar hafa verið skipulagðar flugferðir til Hvíta-Rússlands frá Mið-Austurlöndum með fólk sem síðan reynir að komast ólöglega inn á Schengen-svæðið um Lettland, Litháen og Pólland sem eiga landamæri að Hvíta-Rússlandi.

Finnska strandgæslan segir að frá þessum löndum sé fólki síðan smyglað til annarra landa, til dæmis Finnlands. Telur strandgæslan að um 10 smyglhópar skipuleggi ferðir fólksins og um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Í smyglhópunum eru einstaklingar með fast aðsetur í Finnlandi og hafa nokkrir þeirra verið handteknir.

Jukka Tekokoski, yfirmaður glæpadeildar strandgæslunnar, segir að einstaklingar hafi greitt smyglurunum allt að 15.000 dollurum (tæpar 2 m. ísl. kr.) fyrir fargjald til Finnlands.

„Fargjaldið er á bilinu 5.000 til 15.000 dollarar,“ sagði hann við YLE.

Hann segir að á annan tug manna hafi verið smyglað til Finnlands undanfarna mánuði, flestir frá Írak. Um tíma voru áætlunarferðir frá flugvellinum í Bagdad í Írak til Minsk í Hvíta-Rússlandi á vegum smyglara í samvinnu við hvítrússnesk stjórnvöld. ESB samdi við Íraksstjórn um að banna þessar flugferðir en nú kemur farandfólk fljúgandi til Minsk frá Sýrlandi.

Ýmsum aðferðum er beitt til að smygla fólki til Finnlands. Það er til dæmis falið í farangursgeymslu bifreiða sem fluttar eru með ferjum frá Eistlandi. Þá hefur því verið flogið frá Póllandi eða sett um borð í ferjur í Þýskalandi.

Eistlendingar hafa hert landamæravörslu sína vegna straumsins frá Hvíta-Rússlandi. Forráðamenn ESB segja þessar aðferðir stjórnvalda í Minsk lið í fjölþátta stríði þeirra við aðildarríki ESB, með ofbeldi af þessu tagi takist að knýja ESB til að aflétta refsiaðgerðum gegn Hvíta-Rússlandi sem beitt er til að andmæla harðræði Alexanders Lukasjenkos, forseta landsins, gegn eigin landsmönnum vegna gagnrýni þeirra á kosningasvindl og einræðisstjórn forsetans.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …