Home / Fréttir / Finnska öryggislögreglan varar menn við að nota eigin farsíma og fartölvur erlendis

Finnska öryggislögreglan varar menn við að nota eigin farsíma og fartölvur erlendis

finn

Finnska öryggislögreglan, Supo, varar Finna við að taka farsíma og fartölvur með sér til útlanda. Sé óhjákvæmilegt að hafa þessi tæki með í för verði ávallt að hafa auga með þeim. Óttast Supo veikar öryggisvarnir í fjarskiptakerfum ýmissa landa.

Tuomas Portaankorva, forstjóri Supo, segir að ekki sé einu sinni öruggt að geyma síma og tölvur í öryggishólfum í hótelherbergjum. Eru þrjár ástæður tilgreindar:

Í fyrsta lagi kunni fjarskiptamiðstöðvarnar sjálfar eða dreifikerfi þeirra að vera gölluð annaðhvort af slysni eða vegna galla í hönnun og uppsetningu. „Af þeim ástæðum skulu menn á ferð erlendis ekki ræða trúnaðarmál í síma,“ segir Supo-forstjórinn við finnska ríkisútvarpið YLE.

Í öðru lagi miðla menn síma- og simkorts upplýsingum til erlendra öryggisstofnana með því að tengjast útlendum fjarskiptakerfum.

Í þriðja lagi kann fjarskiptakerfið eða staðarþjónusta innan þess að virka sem dreifingaraðili vírusa.

„Viðvörunin um að skilja símana eftir heima á sérstaklega við um vinnusíma en ég mundi í raun ekki heldur vilja taka einkasíma minn með mér til sumra landa,“ segir Portaankorva.

Supo segir að tölvuþrjótar hafi reynt að brjótast inn í stjórnkerfi að baki margra mikilvægra innviða í Finnlandi auk þess sem framin hafi verið skemmdarverk gegn þeim.

Viðvörun Supo var birt í kjölfar þess að Finnska utanríkismálastofnunin varaði við nýrri afstöðu Rússa á alþjóðavettvangi. Þeir sýndu nú meiri áhuga en áður á tölvuhernaði og annars konar óhefðbundnum árásaraðferðum.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …