Home / Fréttir / Finnsk stjórnvöld rannsaka GPS-truflanir í lofthelgi sinni

Finnsk stjórnvöld rannsaka GPS-truflanir í lofthelgi sinni

 

Timo Soini utanríkisráðherra.
Timo Soini utanríkisráðherra.

Timo Soini, utanríkisráðherra Finna, lofar að leggja skýrslu fyrir utanríkismálanefnd þingsins vegna ótta um að Rússar hafi truflað GPS-tæki flugvéla yfir Lapplandi. Finnsk flugmálayfirvöld hafa sent frá sér viðvörun og telja að rannsaka beri atvikin.

Það var Matti Vanhanen, fyrrv. forsætisráðherra en núv. formaður utanríkismálanefndar finnska þingsins, sem hvatti til rannsóknar á grunsemdum um að Rússar stæðu að baki GPS-truflunum á sama tíma og efnt var til NATO-æfingarinnar Trident Juncture í norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.

Í frétt finnska ríkisútvarpsins, YLE, föstudaginn 9. nóvember sagði að finnska flugumferðarstjórnin hefði 5. nóvember sent frá sér viðvörun um ótrygg GPS-merki í norðurhluta Finnlands.

Vahanen líkti GPS-truflunum við brot gegn finnskri lofthelgi og krafðist þess að málið yrði upplýst.

„Finnsk stjórnvöld hafa mótað skýra afstöðu til brota gegn lofthelgi. Frá þeim er skýrt, þau eru rannsökuð og tafarlaust er brugðist við þeim. Frá mínum sjónarhóli gildir svipað um þessi atvik þegar litið er til flugöryggis. Það er mjög mikilvægt að komast til botns í þessu og bregðast við því,“ sagði Vanhanen.

Hann lagði áherslu á að hann reisti afstöðu sína á opinberum upplýsingum og hann hefði enga hugmynd um hver stæði að baki GPS-truflununum. Finnskir embættismenn hafa ekkert sagt um málið en norsk yfirvöld hafa gefið til kynna að Rússar standi að baki svipuðum truflunum í Noregi.

Áður en finnsk flugmálayfirvöld birtu viðvörun sína hafði norska flugmálastjórnin sent sambærilega viðvörun í tengslum við NATO-æfinguna. Gilti viðvörunin í Noregi þar til síðdegis föstudagsins 9. nóvember.

Timo Soini utanríkisráðherra vildi ekkert segja um efni málsins.. Ráðherrann sagði á fundi finnska þingsins 9. nóvember að formaður utanríkismálanefndarinnar fengi ávallt svar við því sem óskaði.

Ilkka Kanerva, formaður varnarmálanefndar þingsins, sagði verulega hættu steðja að flugumferð vegna GPS-truflana. Þær gætu skapað óvæntar og stórhættulegar aðstæður fyrir flugmenn. Brýnt væri að rannsaka málið og ræða það síðan við þá sem hlut ættu að máli. Koma yrði í veg fyrir að þessi hætta skapaðist innan finnskrar lofthelgi.

 

Heimild: YLE

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …