Home / Fréttir / Finnlandsforseti segir samstöðu milli Evrópu og Bandaríkjanna um NATO – Finnar boða eflingu herafla síns

Finnlandsforseti segir samstöðu milli Evrópu og Bandaríkjanna um NATO – Finnar boða eflingu herafla síns

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Sauli Niinistö Finnlandsforseti á öryggisráðstefnunni í München,
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Sauli Niinistö Finnlandsforseti á öryggisráðstefnunni í München,

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, var meðal þátttakenda í öryggisráðstefnunni í München 17. til 19. febrúar. Eins og fram hefur komið hér á síðunni lýsti Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, þar yfir „óhagganlegum“ stuðningi Bandaríkjastjórnar við NATO. Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, sagði hins vegar að NATO væri hluti af úreltu kenningakerfi kalda stríðsins. Finnski forsetinn sagði blaðamönnum að sér hefði fundist að fulltrúar Evrópu og Bandaríkjanna hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu um NATO.

Finnar eru ekki aðilar að NATO. Í samtalinu við fréttaritara finnska ríkisútvarpsins, YLE, á fundinum í München sagði Sauli Niinistö Finnlandsforseti að eitt af því helsta sem ráðstefnan hefði skilað væri að fulltrúar Bandaríkjanna og Evrópu hefðu fundi sameiginlegan flöt á afstöðu sinni til NATO.

„Með mismunandi orðalagi eru skilaboðin þau sömu, að báðir aðilar hafi veitt hvor öðrum aðstoð, jafnvel fórnað sér hvor fyrir annan,“ sagði Niinistö.

Eftir að Sergei Lavrov hafði lýst NATO sem fyrirbrigði kalda stríðsins á lokametrunum sagði hann einnig að útþensla NATO í Evrópu undanfarin 30 ár hefði aukið spennu í álfunni og loks að Rússar vildu koma á raunhæfara samstarfi við Bandaríkjamenn.

Í máli sínu vék rússneski utanríkisráðherrann að tillögu Finnlandsforseta um að ratsjársvarar yrðu í flugvélum á Eystrasalti til að auka flugöryggi. Lavrov taldi að jákvæð afstaða Rússa til tillögu Niinistös væri til marks um vilja Rússa til að eiga samstarf við stjórnvöld á Vesturlöndum.

Finnska ríkisstjórnin birti fimmtudaginn 16. febrúar í fyrsta sinn opinbera skýrslu um stefnu sína og markmið í varnarmálum. YLE dró saman sex höfuðatriði stefnunnar:

  1. Styrkur heraflans. Heildarfjöldi í her Finnlands á stríðstíma verði 280.000 menn í stað 230.000 núna.
  2. Milljörðum evra verði varið til kaupa á hergögnum. Í forgangi eru nýjar orrustuþotur og ný herskip.
  3. Fjárveitingar til varnarmála verði auknar um 55 milljónir evra á ári frá 2018 til 2021 en síðan aukist árlegar fjárveitingar um 150 milljónir evra á ári.
  4. Við mat á ógnum er litið til hernáms Krímskaga, átaka í austurhluta Úkraínu og hernaðarspennu á Eystrasaltssvæðinu. Auk þess er getið um markmið Rússa að festa sig í sessi sem stórveldi og stækka áhrifasvæði sitt opg hættuna á blendingsstríði.
  5. Samvinna við NATO. Ekki verður gert neitt sem hindrar hugsanlega þátttöku í hernaðarbandalagi.
  6. Lögð er sérstök áhersla á samstöðu með Svíum og samvinnu við þá.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …