Home / Fréttir / Finnlandsforseti nefnir tímamörk vegna NATO-aðildar

Finnlandsforseti nefnir tímamörk vegna NATO-aðildar

Sauli Niinistö Finnlandsforseti.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti segist trúa því að Finnar og Svíar verði aðilar að NATO fyrir ríkisoddvitafund bandalagsins í Vilníus, höfuðborg Litháens, 11. og 12. júlí 2023, segir í frétt finnsku fréttastofunnar STT laugardaginn 11. febrúar.

Verði Finnar ekki komnir í bandalagið þá þurfi að kanna stöðuna og spyrja hvort gera megi ráð fyrir að aðild verði nokkru sinni samþykkt. Forsetinn segir að verði samþykkt aðildarinnar dregin fram yfir fundinn megi líta þannig á að málinu sé í raun skotið á frest.

„Þetta [langa ferlið] hefur þegar skapað NATO vandræði. Margar aðildarþjóðir eru einnig undrandi,“ sagði forsetinn og vísaði til neitunar Tyrkja á að samþykkja aðildarumsóknir Finna og Svía.

„Tvíhliða viðræður milli fulltrúa Bandaríkjanna og Tyrklands kynnu að liðka fyrir málum,“ sagði Niinistö.

Þegar hann var spurður álits á umræðum um að Finnar og Svíar yrðu ef til vill ekki samferða inn í NATO sagði forsetinn að Finnar yrðu að virða „gagnkvæman skilning“ við norrænan nágranna sinn. Markmið beggja ríkjanna væri að fara sem fyrst saman inn í NATO.

Formenn finnsku þingflokkanna urðu sammála um það föstudaginn 10. febrúar að þingið gæti afgreitt lög tengd NATO-aðildinni strax þótt Tyrkir og Ungverjar hefðu ekki samþykkt aðildarumsóknirnar.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …