Home / Fréttir / Finnlandsforseti lýsir áhyggjum vegna Úkraínu-umsáturs Rússa

Finnlandsforseti lýsir áhyggjum vegna Úkraínu-umsáturs Rússa

Saul Niinistö Finnlandsforseti og Vladimir Pútin Rússlandsforseti.

Í The New York Times (NYT) birtist mánudaginn 14, febrúar grein eftir Jason Horowitz um Sauli Niinistö (73 ára) forseta Finnlands og mat hans á því sem kann að vaka fyrir Vladimir Pútin Rússlandsforseta með umsátrinu um Úkraínu. Segir blaðamaðurinn að Niinistö, sem hefur verið forseti síðan 2012, sé sá vestrænna stjórnmálamanna sem hafi mest persónuleg kynni af Pútin eftir að Angela Merkel hvarf af stóli Þýskalandskanslara.

Blaðamaðurinn hitti Finnlandsforseta í Helsinki. Hann sé ekki bjartsýnn eftir að hafa rætt við Pútin í janúar 2022. Honum finnst Pútin hafa breyst á milli funda þeirra. Hann sé ákveðnari en áður og svo virðist sem hann telji sig verða að „grípa tækifæri“ sem hann hafi núna.

Pútin telji erfitt að ímynda sér að hlutirnir verði að nýju eins og þeir voru áður. Deilt sé um framkvæmd Minsk-friðarsamkomulagsins sem Rússar vilji að sé virt. Eina sem við blasi í stöðunni sé að Rússar þrýsti á Evrópuríkin og fái Bandaríkjamenn til að samþykkja kröfur sínar eða að það verði „stríðsátök“.

Blaðamaðurinn minnir á miklar vinsældir Niinistös meðal þjóðar sinnar, þær mælist um 90% en forsetinn segi þær óbreyttar frá því sem verið hafi um forvera hans og sæti þess vegna ekki tíðindum. Hann vill ekki láta eins og hann viti betur en aðrir hvað Pútin sé að hugsa. Þá vill hann ekki heldur spilla sambandinu sem hann hefur ræktað við Pútin í áranna rás á fundum og með símtölum auk þess sem þeir hafi keppt í íshokkí.

Blaðamaðurinn segir að Niinstö hafi nefnt að samskipti hans við Pútin hafi borið sýnilegan árangur. Þar megi nefna að stuðningi frá Angelu Merkel hafi hann á árinu 2020 nefnt við Pútin hvort hann leyfði ekki andófsmanninum Aleksei A. Navalníj að leita sér lækninga í Þýskalandi eftir að honum var byrlað eitur af útsendurum yfirvalda. Skrifstofa Navalníjs sendi síðar þakkir til Niinstös.

Niinistö í Der Spiegel

Í þýska vikublaðinu Der Speigel birtist föstudaginn 11. febrúar viðtal við Finnlandsforseta um samskipti hans og Pútins auk þess sem leitað er álits hans á því sem ber hæst um Úkraínu-umsátrið.

SPIEGEL: Í umræðum um samband Rússa og Úkraínumanna birtist nýlega orðið „Finnlandiséring“. Nú krefjist þess margir í Moskvu að Úkraína sé opinberlega hlutlaus utan bandalaga eins og þegar Sovétmenn leyfðu ekki Finnum að ganga í bandalag Vesturlanda eftir síðari heimsstyrjöldina. Hvernig bregðist þér við þessum sögulega samjöfnuði?

Niinistö: Ég skil ekki hvers vegna menn tengja þetta Úkraínu. „Finnlandiséring“ hljómar mjög illa í okkar eyrum. Hún minnir á áttunda áratuginn þegar margir finnskir stjórnmálamenn töldu sér til framdráttar að sýna Sovétmönnum sérstakan skilning og undirgefni – ef til vill meiri en Sovétmenn sjálfir vildu. Það er fullkomlega rangt að nota þetta sem fordæmi fyrir annað land.

SPIEGEL: Vilja Rússar ekki útiloka NATO-aðild Finnlands?

Niinistö: Á kröfulistanum sem Rússar lögðu fyrir Vestrið stendur: engin stækkun NATO að landamærum Rússlands. Þá hefur Sergeij Lavrov sagt opinberlega að gengju Svíar og Finnar í NATO mundu Rússar breyta afstöðu sinni til þeirra – hann hefur með öðrum orðum ekki útilokað aðild. Ég held að staðan sé óbreytt frá árinu 2016. Þá svaraði Pútin spurningu finnsks blaðamanns: Þegar við lítum nú yfir landamærin sjáum við Finna hinu megin við þau. Færu Finnar í NATO sæjum við óvin hinu megin við landamærin. Þetta var mjög ótvírætt.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …