Home / Fréttir / Finnlandsforseti hallast að NATO-aðild

Finnlandsforseti hallast að NATO-aðild

Sauli Niinistö Finnlandsforseti

Sauli Niinistö Finnlandsforseti sagði í samtali við finnka ríkissjónvarpið laugardaginn 26. mars að helsta gildi NATO-aðildar Finna fælist í „fyrirbyggjandi áhrifum“ hennar. Á hinn bóginn kynnu Rússar að svara aðildinni á ýmsan hátt, til dæmis með fjölþátta ógnum.

Í frétt ríkisútvarpsins YLE um samtalið segir að draga megi þá ályktun af orðum forsetans að hann telji kosti aðildar vega þyngra en ókosti. Mestu skiptir að hans mati að leita lausna sem auki öryggi Finnlands.

„Nægilegt öryggi felst í því að Finnar fá þá tilfinningu að ekki ríki neitt neyðarástand og það verði ekki,“ sagði forsetinn og bætti við að aðild að bandalaginu mundi veita „mest fullnægjandi“ öryggi.

Þá telur forsetinn að samhliða þessu megi nefna annan mikilvægan ávinning sem snerti ímynd Finnlands sem öruggs lands. Það mundi til dæmis styðja viðskiptalíf landsins og áhuga á fjárfestingum þar.

Niinistö lagði áherslu á að það væri á valdi þingsins að taka ákvörðun um aðildarumsókn. Lykilatriði væri að þeir sem tækju ákvarðanir á stjórnmálavettvangi og allur almenningur gerði sér grein fyrir ýmsum hugsanlegum afleiðingum þess að ganga í hernaðarbandalag. Hann sagði að gott yrði fyrir finnska þingmenn og landsmenn alla að búa sig fyrir fram undir gagnaðgerðir Rússa yrði ákveðið að ganga í NATO.

Forsetinn sagði finnska embættismenn hafa rætt um hugsanlega umsókn við fulltrúa nokkur lykilríkja innan NATO og fengið þau svör að dyr NATO stæðu Finnum opnar.

Fyrir fáeinum dögum sagði Niinistö við einkareknu sjónvarpsstöðina MTV að hann hefði „gert upp“ hug sinn varðandi NATO-aðild en hann mundi ekki upplýsa um afstöðu sína fyrr en að lokinni frjálsri, ítarlegri umræðu um málið á þingi.

Í samtali við The Financial Times gaf forsetinn til kynna að dýpra varnarsamstarf við Bandaríkjamenn og Svía kynni að vera kostur í stað NATO-aðildar.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …