
Sauli Niinistö Finnlandsforseti flutti ræðu á 74. þingi Norðurlandaráðs í Helsinki þriðjudaginn 1. nóvember. Hann vék að því að 70 ár væru nú frá stofnun Norðurlandaráðs. Ástandið í alþjóðastjórnmálum væri jafnvel verra um þessar mundir en þegar ráðið var stofnað í kalda stríðinu. Við þessar aðstæður væri mikilvægt að norrænu þjóðirnar treystu samvinnu sína.
„Andrúmsloftið í alþjóðastjórnmálum er kaldara núna en á tíma kalda stríðsins. Grimmdarleg árás Rússa á Úkraínu hefur leitt til stríðs í Evrópu,“ sagði forsetinn.
Hann sagði erfitt að sjá fyrir sér hverjar yrðu lyktir stríðsins þrátt fyrir hernaðarlega sókn Úkraínumanna og hugrekki. Hann áréttaði að allar Norðurlandaþjóðirnar styddu Úkraínu staðfastlega.
Finnska ríkisútvarpið YLE spurði forsetann hver hans afstaða væri til þess að kjarnavopnakerfi yrðu í Finnlandi eftir aðild landsins að NATO. Niinistö svaraði að sér þætti þetta langsótt.
„Auðvitað yrði að ræða það, nú segi ég að eins og málum er háttað finnst mér afar fjarlægt að Finnar biðji um eða NATO bjóði kjarnavopn hingað.“
Forystumenn norrænu ríkjanna ræddu við blaðamenn fyrr þriðjudaginn 1. nóvember. Forsætisráðherrarnir Sanna Marin Finnlandi og Ulf Kristersson Svíþjóð sögðu að af hálfu landa þeirra yrðu ekki settir neinir fyrirvarar varðandi kjarnavopn áður en þau yrðu formlega aðilar að NATO.
Í ræðu sinni á Norðurlandaráðsþinginu ræddi Niinistö um aðild Finna og Svía að NATO. Hann sagði að afgreiðsla umsóknanna hefði verið mjög hröð í sögulegu ljósi. Hann sagðist þess fullviss að Ungverjar og Tyrkir myndu samþykkja aðild ríkjanna. Hún yrði síðan til að styrkja Norðurlandasamstarfið enn frekar. Þá myndi aðildin einnig efla samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.
„Við lifum hættulega tíma. Skemmdarverk unnin á gasleiðslum og drónar á lofti yfir mikilvægum skotmörkum eru dæmi um fjölþátta aðgerðir sem við verðum að búa okkur að svara um þessar mundir,“ sagði hann.
Forsetinn taldi Rússa misreikna sig ef þeir teldu að notkun orku sem vopn yrði til þess að hrekja vestræn ríki frá stuðningi við Úkraínu,
„Sagan sýnir að eigin styrkur okkar, einstaklinga og þjóða, eflist við erfiðar aðstæður,“ sagði Finnlandsforseti.