
Í vikunni sem er að líða hefur spenna haldið áfram að magnast vegna stríðsaðgerða Rússa í Úkraínu.
Föstudaginn 30. september tilkynnti Vladimir Pútin Rússlandsforseti í harðorðri ræðu gegn Vestrinu að hann hefði innlimað fjögur héruð í Úkraínu í Rússland.
Þriðjudaginn 27. september bárust fréttir um skemmdarverk í Eystrasalti, í efnahagslögu Svíþjóðar og Danmerkur, á Nord Stream gasleiðslunum milli Rússlands og Þýskalands.
Fjöldi rússneskra karlmanna á herþjónustualdri flýr heimaland sitt til að komast undan herkvaðningu í stríðið í Úkraínu. Vegna þessa ákváðu Finnar að loka landamærum sínum gagnvart Rússlandi.
Sauli Niinistö, forseti Finnlands, nýtur mikils trausts og vinsælda á heimavelli. Hann er einnig áhrifamaður á alþjóðavettvangi, ekki síst vegna þekkingar sinnar á málefnum Rússlands. Rætt var við hann í finnska ríkisútvarpinu, YLE, að morgni laugardags 1. október. Frásögn af viðtalinu birtist á enskri vefsíðu YLE.
Í upphafi var Niinistö spurður um ræðuna sem Pútin flutti 30. september þar sem hann sagði að Rússar væru í stríði við Vestrið. Niinstö sagði þetta til „heimabrúks“ hjá Pútin.
„Ég sé engin merki um raunverulegt stríð milli Rússa og Vestursins,“ sagði Finnlandsforseti.
Eyðilegging Nord Stream leiðslanna áréttaði mikilvægi þess að standa öruggan vörð um grunnvirki samfélagsins. Nú yrði að huga að viðbúnaði við öllu sem gæti hugsanlega gerst.
Það bæri að líta á sprengingarnar í Nord Stream sem áminningu í þá veru.
„Ég held ekki að gasleiðslurnar hafi verið eyðilagðar einungis vegna þess að um gasleiðslur sé að ræða. Skilaboðin voru auðvitað þau að allt gæti gerst.“
YLE bendir á að Rússar liggi helst undir grun um að hafa unnið skemmdarverkið. Sú ógn liggi í loftinu að Rússar eða aðrir kunni að valda tjóni á öðrum mannvirkjum í Eystrasalti, til dæmis gasleiðslu Norðmanna eða fjarskiptastrengjum.
„Versta niðurstaðan er ef alþjóðleg hryðjuverkasamtök hafa unnið [skemmdarverkið] eins og Rússar segja, hryðjuverkasamtökin kunna að láta til sín taka annars staðar,“ sagði Niinistö.
Hann sagði Finna vel í stakk búna til að takast á við hættur af þessu tagi og viðbúnaðarstig finnskra yfirvalda væri hátt. Hann taldi þó ekki líkur á að skemmdarverk yrðu unnin í Finnlandi.
Forsetinn sagði erfitt að segja nákvæmlega fyrir um hvenær Finnland yrði aðili að NATO þegar hann var spurður hvort það yrði fyrir árslok.
Niinistö sagði að ræða Pútins um innlimun fjögurra héraða Úkraínu í Rússland hefði ekki breytt afstöðu Finna til þess hvernig landamærum Úkraínu væri háttað. Rússalandsforseti væri að huga að eigin stöðu og gerði ekkert með afstöðu annarra ríkja.
„Eftir innrás Rússa á þessi svæði segja þeir að nú verji þeir þau og Úkraínumenn séu árásaraðilinn,“ sagði Niinistö.
Fyrir Pútin kynni þetta einnig að snúast um að efla ættjarðareldmóð meðal rússnesku þjóðarinnar.
„Rússar virðast leita að afsökun sem felst í því að þeir verji Rússland en ráðist ekki inn í Úkraínu. Sama aðgerð undir nýjum formerkjum,“ sagði Niinistö.
Hann sagði að þótt tengslin við Rússa væru nú í sögulegu lágmarki skipti miklu að halda opinni viðræðuleið milli Vestursins og Rússa hvað sem liði ótta við að það yrði fordæmt.
YLE bendir á að Niintö hafi rætt við Pútin eftir að stríðið hófst og sagði forsetinn að öllum væri fyrir bestu, jafnvel við þessar erfiðu aðstæður, að viðhalda einhvers konar tvíhliða samtali.
Hann minnti á að eftir herkvaðninguna í Rússlandi hefði stuðningur við Pútin minnkað á heimavelli. Það væri ljóst að Rússar gerðu sér betri grein fyrir því sem væri að gerast en við á Vesturlöndum héldum. „Stríð er grimmdarlegt orð. Það hræðir Rússa líka,“ sagði forsetinn.
Hann taldi að svo virtist núna sem Pútin væri tilbúinn til að fórna öllu.
„Vissulega virðist sem hann [Pútin] leggi allt undir, einnig eigin örlög,“ sagði Sauli Niinistö Finnlandsforseti við YLE 1. október 2022.