Home / Fréttir / Finnland: Varnarmálaráðherrann vill aukið svigrúm til að kalla út varalið hersins

Finnland: Varnarmálaráðherrann vill aukið svigrúm til að kalla út varalið hersins

 

Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands.
Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands.

Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finna, vill sjá breytingar á lögum um útkall varaliða hersins þannig að unnt sé að kalla þá hraðar og á auðveldari hátt til æfinga. Nú verður að gera varaliðinum viðvart með þriggja mánaða fyrirvara um að þeir skuli koma til æfinga ákveðinn dag.

„Í ljósi ógnarmats líðandi stundar virðist fyrirvarinn mjög langur. Núgildandi reglur voru settar þegar menn töldu að aðdragandi hættuástands væri langur og oft hafði varnarlið nokkra mánuði til að búa sig til aðgerða,“ sagði Niinistö við setningu þjóðaröryggisnámskeiðs fyrir varaliða mánudaginn 18. janúar.

Ráðherrann sagði að með afnámi þriggja mánaða fyrirvarans mundi yfirstjórn hersins fá aukið svigrúm til að nota varaliða á skjótan hátt til efla varnarviðbúnað.

Hann vék að pólitískum atburðum á alþjóðavettvangi máli sínu til stuðnings. Nefndi hann innlimun Krím í Rússland sem dæmi um hraða atburðarás og hættuástand sem komið hefði á óvart. Við slíkar aðstæður væri þriggja mánaða fyrirvari til að kalla út finnska varaliða alltof langur tími.

Ráðherrann boðaði að hann mundi í vor leggja fram breytingu á lagaákvæðunum sem lúta að útkalli varaliða hersins fyrir finnska þingið.

Heimild: YLE

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …