Home / Fréttir / Finnland: Þriðjungur rússneskra sendiráðsmanna eru njósnarar

Finnland: Þriðjungur rússneskra sendiráðsmanna eru njósnarar

Skilti rússneska sendiráðsins í Finnlandi.

Finnska ríkisútvarpið, Yle, tók þátt í rannsókn norrænu ríkisútvarpsstöðvanna fyrir utan RÚV á leynilegri starfsemi Rússa í norrænu ríkjunum fjórum: Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Niðurstaða Yle er að þriðjungur rússneskra sendiráðsstarfsmanna í Helsinki séu í raun njósnarar.

Finnska öryggis- og leyniþjónustan Supo staðfestir þessa niðurstöðu rannsóknarteymis Yle.

Sænska ríkisútvarpið, SVT, benti á 21 rússneskan njósnara og höfðu að minnsta kosti 13 þeirra starfað í rússneska sendiráðinu í Stokkhólmi til apríl 2022.

Þriðjudaginn 25. apríl ráku sænsk yfirvöld fimm rússneska sendiráðsmenn úr landi.

Hvorki Supo, finnska utanríkisráðuneytið né finnska forsetaskrifstofan vildi upplýsa Yle um hve mörgum rússneskum sendiráðsmönnum hefði verið vísað frá Finnlandi.

Rannsóknarteymi Yle fékk upplýsingar um að fulltrúar Supo hefðu nokkrum sinnum lagt stein í götu rússneskra njósnara þegar þeir ætluðu að stofna til tengsla við finnskar stofnanir.

Supo sagði í mars 2023 að rússneskum njósnurum í Finnlandi hefði fækkað um helming í fyrra. Í ársskýrslu Supo fyrir 2022 sagði að samdráttinn mætti rekja til þess að Supo hefði vísað rússneskum njósnurum úr landi og neitað nýjum um vegabréfsáritanir. Taldi Supo að njósnastarfsemi Rússa í Finnlandi hefði „minnkað umtalsvert“ í fyrra.

Fyrir tveimur vikum ráku norsk stjórnvöld 15 rússneska sendiráðsmenn úr landi. Miðvikudaginn 26. apríl var norski sendiherrann í Moskvu, Robert Kvile, kallaður í rússneska utanríkisráðuneytið og honum tilkynnt að 10 norskir sendiráðsmenn yrðu að hverfa frá Rússlandi.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …