
Stefnumótandi dómur féll í héraðsdómi Helsinki í Finnlandi fimmtudaginn 18. október þegar blaðakonunni Jessikku Aro voru dæmdar bætur og sá sem ofsótti hana á netinu var dæmdur í fangelsi. Um var að ræða nettröll hliðholl Rússum sem reyndu að þagga niður í blaðakonunni.
Jessikka Aro starfar sem rannsóknarblaðamaður hjá finnska ríkisútvarpinu YLE.

Ilja Janitskin, stofnandi vefsíðunnar MV-Lehti sem vill hlut útlendinga sem minnstan en styður málstað Kremlverja, hlaut 22 mánaða fangelsisvist eftir að hafa verið fundinn sekur um 16 ákæruliði, þar á meðal ærumeiðingar.
Johan Bäckman, gamalkunnur málsvari stjórnvalda í Moskvu í Finnlandi, var einnig fundinn sekur um ærumeiðingar og ofsóknir. Hann hlaut eins árs skilorðsbundinn dóm.
Í dómnum sagði að Bäckman hefði hvatt aðra netverja til að ráðast á Aro og áreitið sem hún varð fyrir vegna þessa hefði dregið mjög úr lífsgæðum hennar sagði YLE.
Starfskona á MV-Lehti hlaut einnig þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm.
Þá voru þau sakfelldu dæmd til að greiða kærendum 136.000 evrur (18,2 m. ísl. kr.) í skaðabætur en þær renna til Aro og tveggja annarra sem áttu aðild að málinu.
Litið er á dóminn sem mikinn sigur gegn þeim sem flytja hatursboðskap á netinu í Finnlandi, refsingin er þyngri en ákæruvaldið krafðist.
Aro varð fórnarlamb nettrölla í þágu Rússa á árinu 2014 þegar hún hóf að fjalla um áróður Rússa og upplýsingafalsanir sem þeir dreifðu á finnskum samfélagsmiðlum.
Aðförin að henni magnaðist mikið eftir að hún ræddi við starfsmenn í svonefndri „nettrölla-smiðju“ í St. Pétursborg. Þar fékk fólk greitt fyrir að dreifa lygi á samfélagsmiðlum. Hún var í hópi þeirra sem fyrstir vöktu athygli á nettrölla-smiðjum í þjónustu Rússa.
Á næstu fjórum árum eftir að hún hóf rannsóknir sínar var upplýsingum um einkalíf hennar dreift á netinu, fylgst var með ferðum hennar og oftar en einu sinni var henni hótað lífláti. Henni bárust meira að segja boð sem sögð voru frá föður hennar þótt hann hefði fallið frá fyrir mörgum árum.
Margt af níðinu um Aro birtist á MV-Lehti, meðal annars ásökun um að hún væri eiturlyfjaneitandi.
Hún fékk aðal-blaðamannaverðlaun Finnlands árið 2016 fyrir fréttir sínar af nettrölla-smiðjum Rússa og upplýsingafölsunum þeirra.