Home / Fréttir / Finnland: NATO-aðild hrekur ekki Vinstrabandalagið úr ríksstjórn

Finnland: NATO-aðild hrekur ekki Vinstrabandalagið úr ríksstjórn

LI Andersson, formaður Vinstrabandalagsins í Finnlandi.

Vinstrabandalagið í Finnlandi ákvað laugardaginn 7. maí að sitja áfram í ríkisstjórn Sönnu Marin, forsætisráðherra Jafnaðarmannaflokksins, þótt stjórnin beitti sér fyrir aðild Finnlands að NATO. Flokksráð og þingmenn flokksins komust að þessari niðurstöðu og féllu atkvæði þannig að 52 studdu hana en 10 voru á móti.

Opinber stefna flokksins er gegn aðild Finnlands að NATO. Við aðild sína að ríkisstjórninni setti flokkurinn sem skilyrði að ekki yrði gengið í hernaðarbandalag.

Flokksformaðurinn, Li Andersson, menntamálaráðherra, segir hins vegar nú að flokkurinn standi að baki setu ráðherra sinna í ríkisstjórninni þótt hún styðji aðild að NATO. Hún tók jafnframt fram að flokksfélögum væri heimilt hvort heldur að styðja NATO eða að vera á móti bandalaginu.

„Vinstrabandalagið hefur verið mjög einhuga í þessu máli [NATO-aðild Finna] en nú eru tvær ólíkar fylkingar vegna þessa máls innan flokksins og margir hafa ekki gert upp hug sinn,“ sagði Andersson.

Í umræðunum innan flokksins laugardaginn 7. maí var lögð rík áhersla á að færu Finnar í NATO yrðu þeir áfram að vinna að heimsfriði og styðja þá sem berjast fyrir mannréttindum.

Andersson sagði að aðild að NATO tryggði öflugri varnarsamvinnu en aðild að ESB þótt innan ESB væru ýmsar öryggistryggingar. Neikvæð hlið NATO-aðildar væri að hún kynni að auka stjórnmálalega og hernaðarlega spennu við austur landamæri Finnlands.

Andersson hefur ekki enn kynnt eigin afstöðu í NATO-málinu en þess er vænst að hún geri það einhvern næstu daga.

 

Heimild: YLE

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …