Home / Fréttir / Finnland: Mælt með mikilli aðgæslu sé áhugi á NATO-aðild

Finnland: Mælt með mikilli aðgæslu sé áhugi á NATO-aðild

29_4_NATO logo laivan savupiipussa 16_63645891

Í skýrslu um áhrif af hugsanlegri NATO-aðild Finnland sem kynnt var föstudaginn 29. apríl segir að nú þegar séu Finnar í innsta kjarna samstarfsþjóða NATO og varla verði lengra gengið í hernaðarsamvinnu við bandalagið á öllum sviðum fyrir utan loftrýmiseftirlit. Tækju Finnar hins vegar ákvörðun um að ganga í Atlantshafsbandalagið (NATO) og njóta verndar 5. greinar Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt ríki sé árás á þau öll myndi það „marka þáttaskil“, gjörbreyta almennri stefnu Finna í öryggis- og varnarmálum og sérstaklega stefnunni gagnvart Rússum.

Skýrslan var samin að tilhlutan ríkisstjórnar Finnlands á grundvelli stjórnarsáttmála hennar af fimm manna hópi sem skipaður var í janúar 2016. Í honum sátu Mats Berquist, sendiherra frá Svíþjóð, François Heisbourg, stjórnarformaður Alþjóðahermálastofnunarinnar í London (IISS) Miðstöð öryggismála í Genf (GCSP) frá Frakklandi, René Nyberg, sendiherra frá Finnlandi, og Teija Tiilikainen, forstjóri Finnsku utanríkismálastofnunarinnar, frá Finnlandi.

Í niðurstöðunum segir að þvert á það sem almennt mætti ætla yrðu dýpstu áhrif þessara þáttaskila ekki á hernaðarsviðinu, aðild Finna mundi ekki leiða til þess að þeir hyrfu frá gamalgrónum reglum sínum um herskyldu. Breytingarnar samhliða aðild Finna yrðu geópólitískar og strategískar, það er þær mundu raska grunnþáttum núverandi stöðu með tilliti til landafræðilegra forsendna í stjórnmálum og hermálum. Þeim mætti jafna við það þegar Svíar völdu hlutleysi fyrir um tveimur öldum eða þegar Pólverjar gengu í NATO í lok tíunda áratugarins. Í þeim ákvörðunum hefðu falist langtímamarkmið sem breyttu stöðu Svíþjóðar og Póllands sem þátttökuríkja í alþjóðlegum stjórnmálum og hermálum. Með öðrum orðum fælist ekki í NATO-aðild Finnlands aðeins stigsmunur á sífellt nánara samstarfi þeirra við NATO.

Í öðru lagi benda höfundar skýrslunnar á að tímasetning ákvarðana um öryggismál þjóða skipti lykilmáli. Ekki beri að hrapa að slíkum ákvörðunum. Yrði aðildarferli hafið yrði tvíhliða skilningur að ríkja um að þar væri um langtíma skuldbindingu að ræða og að ákvörðun um aðildarumsókn kynni að verða erfið eftir að strategískt ofviðri hæfist. Hafa yrði þetta í huga við framkvæmd samhliða stefnu um að halda áfram núverandi stefnu um samvinnu við NATO. Að eiga þann kost að sækja um aðild er tæki sem má beita skapi óútreiknanlegur nágranni geópólitíska úlfakreppu.

Loks segja skýrsluhöfundar í lokaorðum sínum að í starfi sínu hafi þeir hvað eftir annað fengið staðfest að áhrifin af hugsanlegri NATO-aðild Finnlands yrðu mun hagfelldari ef um samræmda ákvörðun Finna og Svía yrði að ræða. Þá yrði ákvörðun Svía um NATO-aðild og ákvörðun Finna um að sækja ekki um aðild til þess að Finnar yrðu einangraðir og berskjaldaðir.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …