Home / Fréttir / Finnland: Hætta í netheimum og af hernaðarbrölti Rússa

Finnland: Hætta í netheimum og af hernaðarbrölti Rússa

Í varnarmálaskýrslu finnsku ríkisstjórnar árið 2021 eru helstu áherslur þjóðaröryggismála næstu árin kynnt. Athygli er einkum beint að nýjum viðfangsefnum, þar á meðal á sviði netvarna.

Bent er á að spenna og óvissa setji svip sinn á varnir Finna og aðgerðasvæði finnska hersins taki miklum breytingum. Esa Pulkkinen, hershöfðingi og yfirmaður stefnu- og skipulagsmála í finnska varnarmálaráðuneytinu, sagði keppni milli stórvelda móta ástandið í nágrenni Finnlands og hefði hún áhrif á ákvarðanir um varnir landsins. Framganga Kínverja um heim allan hefði einnig áhrif en í skýrslunni segir að ekki sé unnt að líta fram hjá því hvernig Kínverjar reyni að koma ár sinni fyrir borð í einstökum löndum.

Minnt er á að Rússar hafi undanfarið eflt hernaðarmátt sinn á vestur landamærum sínum. Í skýrslunni segir að ekki sé unnt að útiloka hernaðaraðgerðir enda þótt ekki sé minnst á neina beina ógn við finnskt öryggi.

Timo Kivinen herforingi sagði við kynningu á skýrslunni að nútíma vopnakerfi treysti meira en eldri kerfi á stafrænar lausnir, upplýsingatækni og netheima. Finnar verði að efla netöryggi sitt og varnir samhliða aukinni þátttöku í alþjóðasamvinnu á þessu sviði.

Kivinen varaði einnig við fjölþátta (e. hybrid) aðgerðum gegn Finnum eins og öðrum þjóðum. Þeim væri beitt til að hafa áhrif á skoðanamyndun í einstökum löndum eða til að skapa þar vandræði. Aðgerðum af þessu tagi mundi fjölga.

Sérstaklega er vikið að nýjum verkefnum vegna vaxandi hernaðarlegs og strategísks gildis norðurslóða (e. Arctic). Í skýrslunni segir að þegar Norðurleiðin, siglingaleiðin fyrir norðan Rússland, opnist aukist nýting auðlinda á svæðinu. Það kynni að leiða til alþjóðlegrar spennu. Í skýrslunni er því lýst yfir að „Finnland [sé] á svæði sem sé strategískt mikilvægt“ í augum stórveldanna sérstaklega með tilliti til siglingaleiða yfir Norður-Atlantshaf.

Skýrslan var samþykkt 9. september 2021 í ríkisstjórn Finnlands og send þinginu til meðferðar.

 

Heimild: Barents Observer

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …