Home / Fréttir / Finnland: Hælisleitendur á rússneskum bílskrjóðum frá Murmansk – skipulagt smygl á fólki

Finnland: Hælisleitendur á rússneskum bílskrjóðum frá Murmansk – skipulagt smygl á fólki

Rússneskir bílar sem hafa verið kyrrsetttir í Lapplandi vegna rannsókna á málum hælisleitenda.
Rússneskir bílar sem hafa verið kyrrsetttir í Lapplandi vegna rannsókna á málum hælisleitenda.

Hælisleitendur sem koma til finnska Lapplands frá Rússlandi segja við finnska ríkisútvarpið, YLE, að smyglarar á fólki í rússnesku borginni Múrmansk hafi svindlað á sér og ógnað sér. Rúmlega 800 hælisleitendur frá Rússlandi hafa leitað á náðir finnskra yfirvalda í Lapplandi síðan haustið 2015.

Fimmtudaginn 7. janúar fór 21 afganskur hælisleitandi yfir landamærin frá Rússlandi um finnsku landamærastöðina í Salla. Þeir óku að landamærunum í tveimur gömlum bílum sem þeir höfðu keypt í Múrmansk í 400 km fjarlægð. Þeir sögðu YLE að þeir hefðu greitt þúsundir evra fyrir bílana.

Þegar þeir óku síðasta áfanga leiðar sinnar til Finnlands var kuldinn mestur á þessum vetri. Nóttina áður fór frostið niður í -40°C en þennan dag var um 25°C frost. YLE segir að Afganarnir hafi verið í venjulegum vetrarfötum sem veiti ekki skjól nema í stuttan tíma í þessum miklu kuldum. Kona í hópnum óttaðist að barn sitt hefði orðið fyrir koltvísýrings eitrun frá útblæstri í þéttsetnum bílnum.

Án þess að vilja láta nafns síns getið og fjarri myndavélum sögðu hælisleitendurnir fréttamanni YLE að smyglarar á fólki í Múrmansk hefðu blekkt sig, svindlað á sér og hótað sér. Nokkrir sögðust hafa búið í þrjú ár í Moskvu og hefðu flogið til Múrmansk fyrir einum mánuði. Þeir sögðust hafa greitt smyglurunum eða mafíunni eins og þeir kölluðu þá þúsundir evra.

Einn úr hópi hælisleitendanna sagði að fólks-smyglararnir hefðu um tíu sinnum haldið af stað í áttina til Finnlands með sig og fjölskyldu sína en fundið afsökun í hvert skipti til að snúa til baka og heimta meira fé. Hópurinn sagðist hafa gist í farfuglaheimili í Múrmansk þar sem 50 til 70 manns biðu færis að geta sótt um hæli í Finnlandi.

Þeir sögðust hafa flúið talibana og Ríki íslams í Afganistan. Börn sín hefðu verið ofsótt í Moskvu og þeim hefði verið neitað um bólusetningu vegna uppruna síns. Ekki kom fram hvers vegna þau hefðu kosið að fara norðurleiðina til Vesturlanda.

Norðmenn hafa lokað landamærum sínum við Kirkenes í norðri eftir að 5.500 flóttamenn fóru yfir þau frá Rússlandi, flestir á reiðhjóli af því að bannað er að ganga í gegnum landamærastöðina.

Finnar bönnuðu fyrir nokkrum vikum að hælisleitendur kæmu á reiðhjóli frá Rússlandi til Finnlands. Nú nýta þeir sem leita hælis sér gamla rússneska bílskrjóða.

Nokkrir tugir gamalla bíla af gerðunum Lada og Volga eru á stæðum nálægt landamærastöðinni í Salla. Á öllum eru rússneskar númeraplötur og á flestum þeirra eru tölustafirnir 51 sem sýna að bílarnir hafa verið skráðir í Múrmansk-umdæminu.

Sumardekk eru á nokkrum bílanna. Einn er klesstur að framan eftir árekstur. Bílarnir eru kyrrsettir vegna sakamálarannsóknar og þar sem þeir fullnægja ekki finnskum öryggiskröfum.

Hugsanlegt er að hælisleitandi verði ákærður fyrir að skipuleggja ólöglega komu fólks til Finnlands þar sem hafi ekið bíl með öðrum farþegum en fjölskyldu sinni.

Fyrir utan rannsóknir vegna hælisleitenda í Lapplandi glíma finnsk yfirvöld við skipulagt smygl á fólki eftir leiðum við Eystrasalt og yfir Eystrasalt til Finnlands. Lokið er frumrannsókn máls á starfsemi smyglhrings sem talið er að hafi staðið að því að lauma 68 manns ólöglega til Finnlands. Talið er að hringurinn nái til manna í Finnlandi, Svíþjóð, Þýskalandi og Austurríki.

Yfirvöldin segja að hringurinn starfi í nokkrum löndum. Þeim sem smyglað var til Finnlands voru fluttir í gegnum Svíþjóð og þaðan annaðhvort með skipi frá Stokkhólmi eða í bíl um finnska bæinn Tornio. Fyrir þetta greiddi fólkið stórfé. Fjórir eru í gæslu vegna málsins. Hugsanlegt er að 18 verði ákærðir vegna þess.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …