Home / Fréttir / Finnland: Fullyrt að stjórnin hafi farið að kröfu Rússa

Finnland: Fullyrt að stjórnin hafi farið að kröfu Rússa

 

Finnskir lögreglumenn
Finnskir lögreglumenn

Því er slegið upp í finnskum blöðum miðvikudaginn 13. apríl að finnska ríkisstjórnin hafi beygt sig gagnvart kröfu Rússa um að EES- og ESB-borgurum sé óheimilt að fara um landamærastöð í Norður-Finnlandi þótt hún sé opin fyrir Hvít-Rússa auk Finna og Rússa. Er talið að með þessu hafi stjórnin lagst of lágt gagnvart Rússum.

Fréttir um þetta eru á forsíðum tveggja mest seldu blaða Finnlands sem telja að finnska stjórnin hafi lotið of lágt gagnvart Rússum með því að loka landamærastöðvarnar í Salla og Raja Jooseppi í Lapplandi fyrir öðrum en Hvít-Rússum, Rússum og Finnum.

Blaðið Iltalehti flutti um það frétt þriðjudaginn 12. apríl að finnska ríkisstjórnin hefði í febrúar 2016 lagt til við stjórn Rússlands að landamærastöðvarnar yrðu opnar fyrir borgara ESB- og EES-landanna auk Sviss. Eftirlit yrði hins vegar hert til að stöðva skipulagða glæpahópa og ólöglega innflytjendur. Blaðið segir að gagntillaga hafi borist frá Rússum í mars um að aðeins Hvít-Rússum, Rússum of Finnum yrði heimilt að nota stöðvarnar. Minnisblað sem hafi verið birt eftir fund forseta Finnlands og Rússlands sýni að Finnar hafi fallið frá kröfu sinni, samkomulag hafi tekist á forsendum Rússa og því hrundið tafarlaust í framkvæmd.

Iltalehti segir miðvikudaginn 13. apríl að þingmönnum hafi verið bannað að ræða um efni samkomulagsins við Rússa. Utanríkisnefndarmenn megi ekki skýra frá neinu sem fram hafi komið á fundi þeirra í síðustu viku með Petteri Orpo innanríkisráðherra.

Finnskur stjórnarerindreki segir í blaðinu: „Mikilvægt er að vita hvort Finnar séu beittir þrýstingi í tvíhliða samskiptum sínum við Rússa.“ Ríkisstjórnin segist hafa birt nægar upplýsingar um málið til þeirra sem málið varðar.

Timo Soini utanríkisráðherra hafnar fullyrðingu blaðsins um að Rússar hafi mælt fyrir um efni landamærasamningsins. „Við vorum ekki niðurlægðir,“ segir Soini. „Okkur voru ekki settir afarkostir, við sömdum.“ Ráðherrann leggur áherslu á að með samningnum hafi ólögleg umferð fólks um landamærin verið stöðvuð.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …