Home / Fréttir / Finnland: Forsætisráðherrann hafnar fréttum um NATO-aðstoð á hættutímum

Finnland: Forsætisráðherrann hafnar fréttum um NATO-aðstoð á hættutímum

Juha Sipilä, forsætisráðherra Finna.
Juha Sipilä, forsætisráðherra Finna.

Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, hefur hafnað blaðafréttum um að aðildarríki NATO hafi samþykkt hernaðaraðstoð við Svía og Finna, sem eru utan NATO, komi til hættuástands á Eystrasaltssvæðinu. Ráðherrann sagði að kvöldi föstudags 10. júní að hann vissi ekki um neinar slíkar ráðagerðir.

Helsingin Sanomat, virtasta dagblað Finnlands, birti föstudaginn 10. júní frétt um að innan NATO væri rætt um hernaðarlegan stuðning við Finna og Svía á hættutímum á Eystrasaltssvæðinu . Að kvöldi þessa sama föstudags sagði Juha Sipilä forsætisráðherra við finnska ríkisútvarpið, YLE, að hann hefði ekki heyrt um neinar slíkar umræður.

„Mér er ekki kunnugt um slíkt tilboð. Áfram er sú meginregla í gildi að Finnar njóta engrar öryggistryggingar eða skuldbindingar með vísan til 5. greinar [NATO-sáttmálans]. Ég veit ekki hvar umræður um þetta hófust,“ sagði forsætisráðherrann þegar við hann var rætt á ársfundi flokks síns, Miðflokksins, í Seinäjoki í vestur Finnlandi.

Sipilä bætti við að um þessar mundir dygði

núverandi samstarfsgrunnur Finnlands og NATO.

Orð forsætisráðherrans eru í samræmi við það sem Jussi Niinistö varnarmálaráðherra segir. Fyrr þennan sama föstudag hafði hann einnig neitað réttmæti fréttarinnar um hugsanlega hernaðaraðstoð NATO við Finna. Niinistö sagði um vangaveltur og óskhyggju að ræða.

„Finnland er ekki í NATO og mun ekki geta tekið þátt í umræðum NATO-ríkja þegar fulltrúar þeirra funda. Ég mun að sjálfsögðu sem varnarmálaráðherra taka þátt í fundi varnarmálaráðherra NATO í næstu viku. Ég hef áður tekið þátt í slíkum fundum en mér er ekki kunnugt um neitt samkomulag eða neinar varnaráætlanir eða hernaðaráætlanir í þágu ríkja sem falla ekki undir 5. grein,“ sagði ráðherrann.

Niinistö gat sér þess til að orðrómurinn um aðstoð við Finna hafi farið af stað eftir BALTOPS-flotaæfinguna sem var að hluta í Finnlandi í fyrri viku. Þar kom mikið lið undir merkjum NATO við sögu og í fyrsta sinn var gengið á land í Finnlandi.

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …