
Um þessa helgi og þá næstu bjóða rúmlega 3.000 Finnar sig fram til þátttöku í námskeiðum á vegum Samtaka til þjálfunar þjóðvarðliða. Í boði eru rúmlega 150 námskeið um landið allt og er boðin kennsla í öllu frá útilegu til varna gegn tölvuárás.
Um er að ræða frjáls samtök sem hafa það hlutverk skipuleggja herþjálfun fyrir sjálfboðaliða og aðra þjálfun sem býr fólk undir hernaðaraðgerðir. Allt að helmingi þeirra námskeiða sem samtökin bjóða er um borgaralegt öryggi og viðbrögð við almennri vá.
Samtökin bjóða námskeið um flestar helgar. Nú um þessa helgi og þá næstu bera námskeiðin hernaðarlegan svip.
„Upphaflega ákváðum við nokkrir vinir að átta okkur hvernig það væri og hvort okkur tækist að skjóta með mismunandi tegundum vopna. Þessi áhugi minn og félaga minna leiddi til þátttöku okkar,“ segi Jussi Lilja við finnska ríkisútvarpið, YLE, laugardaginn 16. apríl. Hann hefur tekið þátt í nokkrum námskeiðum undanfarið meðal annars beitingu hervalds við erfiðar aðstæður í snjó. Þar var hann á skíðum og beitti skotvopni sínu.
Finnsku Samtökin til þjálfunar þjóðvarðliða efndu til um 1.900 námskeiða árið 2015 sem jafngilti 88.000 æfingardögum með þátttöku um 50.000 sjálfboðaliða, segir í frétt YLE.
Talsmenn samtakanna segja að áhugi fólks á starfi þeirra og námskeiðum hafi aukist, einkum meðal ungs fólks og kvenna. Það hafi orðið auðveldara að höfða til fólks vegna meiri umræðna um öryggismál en áður.
Pertti Laatikainen, framkvæmdastjóri samtakanna, segir: „Nú tel ég þetta einstaklega auðvelt [að virkja fólk]. Almenningur skilur stöðuna í öryggismálum. Ég held að efasemdirnar sem voru fyrir 10 til 20 árum hafi minnkað.“
Hann segir öryggishugtakið auk þess skilgreint víðara en áður, fólk telji til dæmis umhverfismál einn þátt þeirra,. öryggi sé ekki einungis skilgreint á hernaðarlegu forsendum.
Nefnt er sem dæmi um áhugann á víðtækari skilgreiningu á hættum sem steðja að örygginu að um þessa helgi er námskeið í Helsinki um upplýsingaöryggi og hvernig túlka eigi upplýsingar í fjölmiðlum. Alls sóttu 150 manns um þau 50 sæti sem voru í boði á námskeiðinu.