Home / Fréttir / Finninn Alexander Stubb í framboði til forystu í ESB

Finninn Alexander Stubb í framboði til forystu í ESB

Alexander Stubb
Alexander Stubb

Alexander Stubb, fyrrv. forsætisráðherra Finnlands (2014-2015) og leiðtogi mið-hægriflokks landsins, Samlingspartiet, stefnir að því að verða næsti forseti framkvæmdastjórnar ESB. Hann leitar eftir stuðningi til að verða oddviti EPP-flokksins í ESB-þingkosningunum í maí 2019. Til að ná því marki verður hann að sigra Þjóðverjann Manfred Weber sem er skjólstæðingur flokkssystur sinnar Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Eftir tvær vikur verður leiðtogafundur EPP í Helsinki og þar verður oddvitinn valinn.

Stubb kynnti framboð sitt formlega mánudaginn 22. október á blaðamannafundi með Petteri Orpo, formanni Samlingspartiet, sem sigraði Stubb í formannskosningu innan flokksins árið 2016. Stubb hefur í eitt ár verið vara-forstjóri Evrópska fjárfestingabankans. Hann er nú í fimm vikna launalausu leyfi frá bankanum til að afla sér fylgis.

Orpo lýsir EPP-leiðtogafundinum í Helsinki sem mesta pólitíska viðburðinum í Finnlandi frá því að öryggismálaráðstefna Evrópu var haldin þar árið 1975. Á fundinum verði um 2.000 stjórnmálamenn frá 27 löndum. Forsætisráðherrar, vara-forsætisráðherrar, leiðtogar stjórnarandstöðu og ESB-þingmenn. „Þetta er einstæður fundur þar sem EPP er aflmesti flokkurinn í Evrópu,“ sagði Orpo.

Innan ESB er þýska orðið „Spitzenkandidat“ notað um oddvita einstakra framboðslista til ESB-þingsins. Orpo sagði Stubb einstaklega vel til þess fallinn að verða fulltrúi nýrrar kynslóðar í forystu Evrópu og taldi honum til sérstaks ágætis að hann talaði fimm evrópsk tungumál (finnsku, sænsku, ensku, þýsku og frönsku).

Í sumar varð ljóst að Jyrki Katainen sem situr nú í framkvæmdastjórn ESB fyrir Finna ætlaði ekki að gefa kost á sér að nýju. Eftir það komst nafn Stubbs á flug bæði í Finnlandi og víðar innan ESB en hann hefur komið víða við á ESB-vettvangi á ferli sínum og meðal annars setið um tíma á ESB-þinginu.

Stubb sagðist átta sig á að hann keppti við fulltrúa stærsta ESB-landsins, Þýskalands. Þegar hann velti málinu fyrir sér í sumar taldi hann sig eiga vísan stuðning 20% manna á EPP-fundinum, nú væri þessi tala komin í 30%. Það væri kostur í keppni við frambjóðanda Merkel að kosningin væri leynileg!

Stubb býður sig sem frjálslyndan kost innan EPP meðal annars með því að árétta andstöðu sína við þjóðernissinnaða þingmenn innan EPP á borð við fulltrúa Fidez frá Ungverjalandi. Á sænsku er kjörorð Stubbs: Jag tolererar inte intolerans.

Hann segir að EPP eigi ekki að líða brot gegn málfrelsi eða takmarkanir á svigrúmi einstaklinga í samfélaginu. Fidesz verði að segja sig úr EPP sætti flokkurinn sig ekki við gildi EPP.

Í Finnlandi velta menn því sér hvort með framboði sínu reyni Stubb að tryggja sér sterka stöðu í æðstu röðum ESB nái hann ekki oddvitasætinu. Hann var um tíma utanríkisráðherra Finna og lýsti því sem draumastarfi. Í því ljósi er bent á að fyrir honum vaki ef til vill að taka við af Federicu Mogherini sem utanríkis- og öryggismálastjóri ESB.

Það var ekki fyrr en fyrir ESB-þingkosningarnar árið 2014 sem Spitzkandidata-kerfið var innleitt. Í því felst að ólíkir flokkar sem bjóða fram til ESB-þingsins tilefna efsta mann á lista sínum sem frambjóðanda í forsæti framkvæmdastjórnar ESB. Sá flokkur sem fær flest atkvæði samtals í kosningunum hlýtur hnossið. Ríkisoddvitar ESB-landanna verða einnig að fallast á þann sem er tilnefndur.

Alexander Stubb er 50 ára, hann hefur setið á ESB-þinginu, verið formaður Samlingspartiet, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og utanríkisviðskiptaráðherra.

Heimild: Hbl.fi

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …