Home / Fréttir / Finnar vilja færri rússneska ferðamenn – leika þjóðsöng Úkraínu fyrir þá

Finnar vilja færri rússneska ferðamenn – leika þjóðsöng Úkraínu fyrir þá

Imatrankoski flúðirnar. Þegar stíflan er opnuð leika Finnar þjóðsöng Úkraínu.

Finnar láta þjóðsöng Úkraínu hljóma í hátölurum á stöðum sem eru vinsælir meðal rússneskra ferðamanna sem koma til Finnlands. Meirihluti Finna vill að reglur um útgáfu ferðamanna áritana til Rússa séu þrengdar.

Í austurhluta Finnland eru Imatrankoski flúðirnar vinsælar meðal ferðamanna, þar á meðal margra Rússa. Þar hljómar þjóðsöngur Úkraínu dag hvern þegar hundruð manna koma saman og fylgjast með þegar aldargömul stífla er opnuð.

Venja var að leika aðeins verk eftir finnska tónskáldið Jean Sibelius fyrir ferðamenn á þessum stað en nú er þjóðsöngur Úkraínu leikinn fyrst til að mótmæla innrás Rússa.

„Þetta er slæmt fyrir Rússa sem elska Finnland,“ sagði Mark Kosjik, 44 ára gamall rússneskur ferðamaður sem kom til að sjá flúðirnar með fjölskyldu sinni:

„Við skiljum hins vegar ríkisstjórn Finnlands. Það standa ekki allir Rússar með Pútin. Ríkisstjórnin og allir hér verða skilja það.“

Þjóðsöngur Úkraínu er einnig leikinn á hverju kvöldi frá ráðhúsinu í Lappeenranta, skammt frá verslanamiðstöð sem er vinsæl meðal Rússa.

„Markmiðið er að láta í ljós öflugan stuðning við Úkraínu og fordæma árásarstríðið,“ sagði Kimmo Jarva við AFP-fréttastofuna.

Margir Rússar leggja leið sína til Lappeenranta til að kaupa fatnað og snyrtivörur og hvarvetna má sjá bíla með rússneskum númerum.

Dag hvern sem herjað er á Úkraínumenn líst Finnum verr á þessa ferðamenn. Kannanir sýna að 58% Finna vilja takmarka útgáfu vegabréfsáritana til rússneskra ferðamanna.

„Ég er þeirrar skoðunar að eigi mjög að takmarka fjöla þeirra,“ segir Antero Ahtiainen, 57 ára, íbúi í Lappeenranta. „Það er eina leiðin til að fá rússneska stjórnmálamenn til að hugsa sinn gang.“

Ríkisstjórn Finnlands ræðir á fundi sínum þriðjudaginn 16. ágúst hvort takmarka eigi útgáfu vegabréfsáritana til rússneskra ferðamanna. Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, hvetur til þess að ákveðið verði af öllum Schengen-ríkjunum að takmarka heimsóknir rússneskra ferðamanna.

Óvíst er hvort samstaða náist um það milli Schengen-ríkjanna. Á hinn bóginn geta ríkisstjórnir einstakra landa gripið til eigin ráðstafana.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari hefur lýst efasemdum um allsherjartakmörkun á útgáfu áritana til rússneskra ferðamanna. Það sé ekki unnt að lýsa alla Rússa samseka með Pútin.

Rússar komast ekki fljúgandi til Schengen-landa en þeir geta farið landveg til Finnlands, Eistlands og Lettlands og frá hólmlendunni Kaliningrad til Litháens og Póllands auk Noregs í norðri.

Eistlendingar ætla nú í vikunni að loka á stærstan hluta Rússa sem koma yfir landamæra þeirra þegar vegabréfsáritanir verða ekki lengur teknar gildar. Pólverjar hafa einnig hert reglur á landamærum sínum.

Jussi Lassila, sérfræðingur við Utanríkismálastofnun Finnlands, sagði YLE, finnska ríkisútvarpinu, að vonandi tækju menn ekki ákvarðanir um allsherjarbann við ferðamanna-áritanir til Rússa nema að vel athuguðu máli á vettvangi ESB. Slíkt bann gæti haft öfug áhrif vegna þess að opin leið til vesturs væri mikilvæg lífæð fyrir stjórnarandstæðinga í Rússlandi. Margir forystumenn þeirra hefðu lýst áhyggjum yfir takmörkunum á útgáfu áritana.

Tékkar fara nú með formennsku í ráðherraráði ESB og hefur Jan Lipavský, utanríkisráðherra Tékklands, hvatt til þess að útgáfu ferðamanna-áritana til Rússa verði hætt.

Finnar hafa ekki enn lagt fram fastmótaðar tillögur um hvernig takmarka eigi ferðamannastraum frá Rússlandi. Hugmyndir hafa þó mótast og verða þær ræddar í finnsku ríkisstjórninni 16. ágúst.

Jussa Lassila telur ólíklegt að takmarkanir á ferðafrelsi Rússa fyrir tilstilli ESB snúi rússnesku þjóðinni gegn Vladimir Pútin forseta. Rússar ferðist almennt lítið til annarra landa. Yfirvöld gætu á hinn bóginn notað ferðatakmarkanir í áróðri sínum um að Vestrið vilji ekkert annað en einangrun Rússa og Rússlands. Þetta kynni einnig að stuðla að meiri ferðum Rússa innan eigin landamæra og efla ferðaþjónustu þar.

Lassila er hins vegar þeirrar skoðunar að hækka eigi leyfisgjöld við útgáfu áritana og senda tekjur af þeim til Úkraínumanna. Þá sé einnig mikilvægt að minna rússneska ferðamenn á stríðið í Úkraínu þegar farið er yfir landamærin til Finnlands. Það sé annað að grípa til strangra ráðstafana en hætta útgáfu áritana alveg.

 

Heimild: Euronews – YLE

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

  Rússnesk stjórnvöld kynntu miðvikudaginn 22. maí áform um að breyta ytri markalínum rússneskra yfirráðasvæða …