Rússar hafa í sjö ár stundað víðtækar netnjósnir í Bandaríkjunum og í ríkjum Evrópu og Asíu. Þetta kemur fram í skýrslu sem finnska fyrirtækið F-Secure birti fimmtudaginn 17. september. Þar segir að stór og „vel búinn“ hópur hakkara sem þekktur sé undir nafninu the Dukes njósni fyrir rússneska ríkið og lýst er umfangsmiklum árásum hópsins undanfarin sjö ár.
Hakkararnir nota flokk spilliforrita sem stela upplýsingum með því að brjótast inn í netkerfi tölva. Meðal þeirra stofnana sem orðið hafa fyrir árásum hakkaranna er fyrrverandi upplýsingaskrifstofa NATO í Georgíu, varnarmálaráðuneyti Georgíu, utanríkisráðuneytin í Tyrklandi, Úkraínu og Póllandi, aðrar stjórnarstofnanir og pólitískar hugveitur í Bandaríkjunum, Evrópu og Mið-Asíu.
Atturi Lehtio, rannsakandi hjá F-Secure og stjórnandi rannsóknarinnar, sagði að allt benti til þess að rússneska ríkið stæði að baki þessum árásum.
Þessi skýrsla er ekki hin eina sem sýnir netnjósnir Rússa. Bandaríska öryggisfyrirtækið FireEye sagði í fyrra að lengi hefði verið reynt að brjótast inn í tölvukerfi bandarískra vopnaframleiðenda, ríkisstjórna í Austur-Evrópu og evrópskar öryggisstofnanir. „Líklega standa Rússar þar að baki.“ sagði í áliti fyrirtækisins,
Á árinu 2014 sagði bandaríska öryggisfyrirtækið Symantec að fundist hefði háþróað netnjósnatæki sem kallað var Regin og það hefði verið notað frá 2008 til að stela upplýsingum frá ríkisstjórnum og fyrirtækjum.
F-Secure segir að innan Duke-hakkarahópsins starfi atvinnu tölvuforritarar, líklega í Moskvu og að baki þeim standi rússnesk stjórnvöld.
Patrik Maldre, rannsakandi hjá International Center for Defense and Security í Eistlandi, sagði finnsku skýrsluna sýna að Rússar hefðu fjárfest „mikið“ í þekkingu og getu til netnjósna og teldu þær „mikilvægan þátt í að treysta strategíska hagsmuni sína“.
Mika Aaltola, verkefnastjóri hjá Finnsku utanríkismálastofnuninni, sagði: „Lítil ríki eins og Svíþjóð og Finnland eiga sérstaklega í vök að verjast vegna njósna af þessu tagi. Stjórnvöld Norðurlanda og Eystrasaltsríkja eru alltaf að leita leiða til að skapa jafnvægi milli hagsmuna Rússa og Vesturlanda og Rússar nota hæfni sína í netheimum til að bæta stöðu sína í þessari jafnvægislist.“
Heimild: RFE/RL