Home / Fréttir / Finnar, Svíar, norræn varnarsamvinna og NATO í ljósi Úkraínustríðsins

Finnar, Svíar, norræn varnarsamvinna og NATO í ljósi Úkraínustríðsins

Breska hugveitan RUSI birtir reglulega greinar um öryggis- og varnarmál á vefsíðu sinni. Miðvikudaginn 13. apríl birtist þar grein eftir tvo Norðmenn sem starfa við Norsku utanríkismálastofnunina (NUPI), Per Erik Solli og Øystein Solvang. Þeir fjalla um aðild Finna og Svía að NATO með sérstakri skírskotun til áhrifa hennar á öryggismál á Norðurlöndunum og nauðsynjar þess að þar sé nægilega öflugur fælingarmáttur til að halda aftur af Rússum.

Hér birtist útdráttur úr greininni:

Að fælingarmátturinn brast í Úkraínu og þar hófst stríð ætti að verða ríkisstjórnum Norðurlanda áminning um að grípa til öflugri og samræmdari aðgerða til að efla fælingarmátt og varnir í sínum heimshluta. Til að styrkja öryggi og stöðugleika verða öll ríkin við norðvestur jaðar Rússlands að þróa svæðisbundið samstarf sitt frá því að snúast um taktískar aðgerðir og varnarsamstarf á þeim grunni og taka upp trúverðugri fælingarstefnu.

Nú þegar næstum þrír áratugir eru síðan Finnar og Svíar hófu samstarf við NATO sýna nýlegar skoðanakannanir að þeim fjölgar mjög mikið meðal íbúa landanna tveggja sem vilja aðild. […]

Norrænu þjóðirnar standa frammi fyrir svipuðum viðfangsefnum, þær vinna nú þegar mikið saman í varnar- og öryggismálum. Danir, Íslendingar og Norðmenn eru í NATO en Finnar og Svíar eru sérstakir samstarfsaðilar NATO (e. Enhanced Opportunities Partners (EOP)) og taka þátt í margvíslegu starfi á vegum NATO, þar á meðal í viðbragðsherafla NATO. Þjóðirnar hafa einnig gert gistiríkjasamninga við bandalagið. Skömmu eftir að Úkraínustríðið hófst kynnti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, aukna samvinnu, skipti á upplýsingum og samráð við norrænu samstarfsþjóðirnar Finna og Svía.

Allar norrænu ríkisstjórnirnar telja Bandaríkjamenn helst tryggja svæðisbundið öryggi og stöðugleika og hafa hver um sig gert sérstaka tvíhliða samninga um samvinnu í öryggis- og varnarmálum við Bandaríkjastjórn. Bandaríski flugherinn og bandaríski landgönguherinn hafa komið upp birgðageymslum í Noregi. Raunar hefur landgönguherinn einnig notað tæki sín í Noregi til æfinga í Finnlandi og Svíþjóð auk Noregs. Á öllum Norðurlöndunum styðja aðilar eða æfa með bandaríska flughernum samhliða því sem sjóher og landgönguher Bandaríkjanna hafa aukið umsvif sín á norðurslóðum undanfarin ár.[…]

Svæðisbundið samstarf við Breta, Dani, Íslendinga og Norðmenn hefur skipt höfuðmáli við þessa umbreytingu [á afstöðu Finna og Svía til NATO]. Öll norrænu ríkin eiga aðild að Norðurhópnum (e. Northern Group) sem stofnaður var að frumkvæði Breta og að Sameiginlega viðbragðsheraflanum (e. Joint Expeditionary Force) auk NATO-ríkja í vesturhluta Evrópu og Eystrasaltslöndunum. Bretar hafa lengi gegnt sögulegu hlutverki og gera enn við að stuðla að stöðugleika og öryggi á Norðurlöndunum. Framtíðarhlutverki þeirra, markmiðum og samstarfsvilja er lýst í nýlegu skjali bresku ríkisstjórnarinnar um varnarstefnu hennar á norðurslóðum.

Núverandi hernaðarsamvinna milli norrænu ríkjanna hefur þróast stig af stigi undanfarin þrjátíu ár. Hún hófst með samvinnu við aðgerðir utan Evrópu á tíunda áratugnum og síðan hefur samstarf herafla frá norrænu ríkjunum aukist jafnt og þétt. Finnar og Svíar hafa reglulega tekið þátt í fjölþjóðlegum, sameiginlegum vetraræfingum í Noregi, til dæmis nýlega í Cold Response-æfingunni. Þá hafa Norðmenn hvað eftir annað tekið þátt í heræfingum á Eystrasaltssvæðinu. Auk þess hafa flugherir Finna, Norðmanna og Svía reglulega þjálfað og æft saman, stundum með herafla annarra samstarfs- og NATO-þjóða. Víðtæk samvinna um æfingar, þjálfun og aðgerðir um árabil hefur leitt til þess að herir Finna og Svía eru orðnir mjög samhæfðir herjum NATO-landa.

Eftir að Rússar gerðu fyrri atlögu sína að evrópsku öryggi – hættuástandið í Úkraínu árið 2014 – juku norrænu ríkin samvinnu sína. Skref fyrir skref var miðað að því að hún næði til aðgerðaáætlana. Í stefnuskjali norræna varnarsamstarfsins (e. The Nordic Defence Cooperation (NORDEFCO)) Vision 2025 er að finna áætlun um æ nánari samvinnu um margvísleg viðfangsefni, þar á meðal flutning og geymslu hernaðarlegra tækja, ástandsmat og samráð á hættustund. Norrænu ríkin hafa ekki skuldbundið sig með formlegri öryggistryggingu, tengsl þeirra eru þó nægilega mikil til að þau fylkja liði saman.

Stríðið í Úkraínu hefur djúpstæðar afleiðingar fyrir norrænt samstarf í öryggismálum. Innrás Rússa sýnir að staða Úkraínu sem EOP-samstarfsríki hefur ekki nægan fælingarmátt, það hvetur til skoðunar á stöðu Finna og Svía. Vegna þess hve herir þeirra eru samhæfðir geta norrænu þjóðirnar staðið að fjölþjóðlegri hernaðaraðgerð á hættustund og í stríði verði veitt til þess sérstakt pólitískt samþykki. Vegna skorts á formlegri öryggistryggingu sem reist er á NATO-aðild blasir hins vegar við strategísk óvissa sem veikir fælingaráhrif og forvarnargildi þessa sameiginlega varnarstyrks. Auk þess geta Danir og Norðmenn varla veitt Finnum og Svíum öryggistryggingu af því að þar með yrði til aðild að bandalagi í gegnum millilið. Ákveði Finnar að ganga í NATO en Svíar að standa fyrir utan, gætu Svíar auðveldlega lent í sömu stöðu og Úkraínumenn yrðu þeir fórnarlömb afmarkaðrar innrásar Rússa. Öll Norðurlöndin verða ekki hluti heildstæðrar og öfugrar fælingaráætlunar sem ætlað er að hindra átök á norðurslóðum nema Finnar og Svíar ákveði að ganga í NATO.

 

Per Erik Solli er fyrrverandi ofursti í norska hernum. Hann er nú hernaðarlegur ráðgjafi við Norsku utanríkismálastofnunina (NUPI).

Øystein Solvang er aðstoðar-rannsóknarmaður við Norsku utanríkismálastofnunina (NUPI).

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …